Innlent

„Stefán er að jafna sig ótrúlega hratt“

Birgir Olgeirsson skrifar
Stefán Karl Stefánsson og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir.
Stefán Karl Stefánsson og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir. Vísir/Valli
„Nú er slétt vika síðan hann fór í aðgerðina sem gekk mjög vel og Stefán er að jafna sig ótrúlega hratt,“ segir leikkonan og ritstjórinn Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir um baráttu eiginmanns síns og leikarans, Stefáns Karls Stefánssonar, við krabbamein.

Steinunn segir frá líðan Stefáns á Facebook-síðu sinni en hún segir illkynja meinið í brishöfðinu eiga upptök sín í gallgöngunum, neðarlega í brishöfðinu.  „Og heitir því sjúkdómurinn gallgangakrabbamein  eða cholangioarcarcinoma,“ skrifar Steinunn Ólína. Hún segir lækna hafa náð meininu öllu og skurðbrúnir hreinar af krabbameinsfrumum.

„Stefán mun þurfa að jafna sig í nokkrar vikur eftir aðgerðina þar sem meltingarvegurinn var endurpípaður en svo hefst svokölluð adjuvant eða fyrirbyggjandi lyfjameðferð í sex mánuði. Gallgangakrabbamein er systurkrabbi briskrabbameins en sjaldgæfari og þess vegna lítt rannsakaður. Á ári hverju greinast 3-5 einstaklingar með gallgangakrabbamein á Íslandi,“ skrifar Steinunn Ólína. 

Hún segir lækna, hjúkrunarfræðinga og starfsfólk Landspítalans hugsa afar vel um Stefán og þau séu staðráðin í að koma honum aftur til heilsu. 

„Við fjölskyldan erum staðráðin í því að vanda okkur á þeirri vegferð og glata ekki voninni, gleðinni og ástinni. Það verður ekki fullþakkað að finna þann hlýhug sem okkur er sýndur. Það er í alvöru talað – ómetanlegt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×