Bakþankar

Það sem líkami minn er ekki

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ég er kona. Ég er með brjóst og píku og leg. Og ýmislegt annað! T.d. hendur og fætur. Og starfandi heila. Og í ljósi ofantalinna þátta finn ég sjálfa mig knúna til að leiðrétta örlítinn misskilning.

Líkami minn er ekki útungunarverksmiðja. Meginhlutverk mitt í lífinu er ekki framleiðsla á karlkyns hvítvoðungum, tilvonandi snillingum framtíðarinnar. Ég á að fá að ráða því sjálf hvort ég sé tilbúin til þess að ganga með og ala upp næsta Abraham Lincoln.

Líkami minn er ekki einhvers konar almenningseign eða tæki til valdeflingar handa öðrum. Enginn, alls óháð fjárhagsstöðu og stórbokkaháttum, má snerta eða klípa eða „grípa í“ líkamspart í minni eigu nema ég gefi til þess leyfi.

Líkami minn er heldur ekki allt sem ég er, í honum kristallast ekki það sem ég hef fram að færa. Ég á ekki að þurfa að keppast við að sníða líkama minn eftir ósnertanlegum fegurðarstöðlum og gjaldgengi mitt í samfélagi manna á ekki að byggjast á því hversu vel mér tekst upp.

Við erum samt alltaf að setja fram skilgreiningar á líkömum kvenna. Fastmótaðar skilgreiningar á því hvaða líkamar eru fallegir og hverjir ekki. Lögfestar skilgreiningar á því hvað konur mega gera við líkama sína og hvað ekki. Og oft eru skilgreiningasmiðirnir ekki einu sinni konurnar sjálfar.

Við nánari umhugsun er þetta kannski meira en örlítill misskilningur. Þetta er kannski ógeðsleg og rótgróin meinsemd. Væri ekki kjörið að uppræta hana?

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.






×