Lífið

Þú með brjóstakrabbamein – þú sem ert læknir?

Elín Albertsdóttir skrifar
 Auður Smith, María Soffía Gottfreðsdóttir og Sigurlaug Benediktsdóttir hafa áhyggjur af því hversu margir kvenkyns læknar hafa fengið brjóstakrabbamein.
Auður Smith, María Soffía Gottfreðsdóttir og Sigurlaug Benediktsdóttir hafa áhyggjur af því hversu margir kvenkyns læknar hafa fengið brjóstakrabbamein. MYND/ERNIR

Læknarnir Auður Smith, María Soffía Gottfreðsdóttir og Sigurlaug Benediktsdóttir hafa allar greinst með brjóstakrabbamein en eru heilbrigðar í dag. Þær hafa nýlega stofnað stuðningshóp fyrir konur í læknastétt sem hafa gengið í gegnum sjúkdóminn. Nokkuð margir kvenlæknar hafa greinst með brjóstakrabbamein sem veldur þeim áhyggjum.

Brjóstakrabbamein spyr ekki um stétt eða stöðu. Læknar greinast með sjúkdóminn líkt og aðrir. Þær María Soffía, Auður og Sigurlaug hvetja konur til að þreifa brjóst sín og vera meðvitaðar um að brjóstakrabbamein sé algengasta krabbamein hjá konum. Brjóstakrabbamein er hægt að greina á snemmstigum og því mikilvægt að fylgjast vel með öllum breytingum sem verða á brjóstum. Á undanförnum árum hafa komið fram mun betri lyf en áður sem auka mjög lífslíkur kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein. Það er þó til umhugsunar að ein af hverjum níu konum greinast með brjóstakrabbamein.
Það er ekki hægt að sjá það á þeim Maríu Soffíu, Auði og Sigurlaugu að þær hafi glímt við erfið veikindi. Þetta eru konur í krefjandi störfum og undir miklu álagi í vinnunni. Þær eru allar sammála um að gott mataræði og hreyfing sé lífsnauðsynlegt fyrir konur sem hafa greinst og einnig sem fyrirbyggjandi aðgerð gegn veikindum. Þá fari streita mjög illa með fólk. Árvekni gegn brjóstakrabbameini hefur slagorðið #fyrirmömmu að þessu sinni. María Soffía, Auður og Sigurlaug eru allar þriggja barna mæður. Læknar þurfa líka stuðning í sínum veikindum.

Fann hnút í brjóstinu

María Soffía er sérfræðingur í augnskurðlækningum. Hún greindist með brjóstakrabbamein fyrir fimm árum, þá 47 ára. „Ég bjó lengi í Bandaríkjunum og var í heimsókn þar þegar ég fann hnút í brjósti. Það var búið að vera mikið að gera hjá mér vikurnar á undan og þetta átti að vera gott frí en ég fann hnútinn á fyrsta deginum,“ greinir María Soffía frá. „Ég vissi strax að þetta væri ekki eðlilegt. Ég hringdi í lækni hér heima sem hvatti mig til að fara í skoðun á staðnum, kannski væri þetta ekkert til að hafa áhyggjur af og ástæðulaust að skemma fríið. Ég fór í myndatöku og sónar og tveimur dögum síðar var ég komin með allar upplýsingar í hendurnar. Ég reyndist vera með HER2-positive brjóstakrabbamein sem var mjög ágeng tegund þar til ný lyf komu á markað fyrir um tíu árum,“ útskýrir María Soffía en hún dreif sig strax heim til Íslands þegar hún fékk niðurstöður úr rannsóknunum.
„Ég var heppin því æxlið var staðbundið og ekkert farið að dreifa sér í eitla. Ég fór í brjóstnám og síðan heilmikla tólf mánaða lyfjameðferð vegna þess að ég var HER2-positive. Ég vann á krabbameinsdeild í hálft ár þegar ég var kandidat og vissi því heilmikið um þennan sjúkdóm. Mér fannst mjög gott að ræða veikindin við lækna sem höfðu gengið í gegnum þetta sama og fá góð ráð frá þeim.“

María Soffía viðurkennir að það hafi verið áfall að missa hárið í kjölfar lyfjagjafa. „Það er kannski hégómlegt en mér fannst mjög erfitt að fara í sturtu og vera með hendurnar fullar af hárum. Ég var með tárin í augunum. Flestum konum líður þannig því hárið er svo stór hluti af manni. Mér fannst heldur aldrei auðvelt að fara í hlutverk sjúklings því maður er vanari að hjúkra eða lækna. Þetta var afar lærdómsríkt,“ segir hún. „Ég vildi ekki láta vorkenna mér, leit á sjúkdóminn sem verkefni sem ég þyrfti að takast á við og ætlaði að gera það vel,“ segir María Soffía. „Maður reynir að vanda sig í öllu því sem maður tekur sér fyrir hendur. Stuðningur fjölskyldunnar skiptir líka miklu máli og ég á mjög góða fjölskyldu. Einnig fór ég út að ganga á hverjum einasta degi og í fjallgöngur en það er mjög mikilvægt. Stundum var erfitt að koma sér út en mér fannst það algjörlega nauðsynlegt. Ég setti mér ákveðið markmið um hreyfingu sem ég fylgdi.“

Brjóstakrabbamein er í flestum tilfellum læknanlegt og lífshorfur kvenna sem greinast á Íslandi með því hæsta sem gerist á heimsvísu, segja þær María Soffía, Auður og Sigurlaug. Allar læknir sem gengið hafa í gegnum þá erfiðu reynslu að greinast með brjóstakrabbamein. MYND/ERNIR

Bylting í meðferðinni

Auður Smith er kvensjúkdóma- og fæðingalæknir. Hún greindist í maí 2013, þá 46 ára. Auður fann sjálf hnút í brjósti en fór ekki alveg strax í myndatöku. „Ég ætlaði að sjá hvernig þetta myndi þróast. Það var mjög mikið að gera hjá mér á þessum tíma. Ég hafði farið í brjóstamyndatöku tæpu ári áður. Það var ákveðinn léttir að ég hafði ekki trassað það. Hins vegar getur æxli byrjað að myndast daginn eftir skoðun og einnig er alltaf möguleiki að það sjáist ekki. Myndatakan er hins vegar besta tækni sem til er. Ég fór síðan í skoðun og ástungu í júlí og viku seinna var ég komin í brjóstnám. Á myndum kom í ljós eitt æxli og hreinir eitlar en í sónar sást lítið æxli að auki. Þegar skorinn var fleygskurður í brjóstið reyndust nokkur lítil æxli í brjóstinu og það var því allt tekið. Brjóstnám fór fram í ágúst og nokkru síðar hófst lyfjameðferð í sex mánuði. Ég reyndist vera með hormónaháðan brjóstakrabba sem þótti mjög slæmt hér á árum áður. Horfur hafa hins vegar gjörbreyst og það hefur orðið bylting í meðferðinni,“ segir Auður. „Ég tek mitt tamoxífen núna en það hindrar áhrif kvenhormónsins estrógengs á krabbameinsfrumur. Þetta lyf setur mann í gegnum tíðahvörf en allar konur sem greinast með hormónaháð brjóstakrabbamein, sem er algengast, þurfa að taka þetta lyf í tíu ár,“ segir hún.

Það var ekki jafn erfitt fyrir Auði og flestar konur að missa hárið. „Kannski vegna þess að ég fann fyrsta gráa hárið þegar ég var sautján ára. Ég var því orðin svolítið gráhærð á þessum tíma og sífellt að lita rótina. Ég eignaðist son þegar ég var 42 ára og langaði að vera ungleg aðeins lengur. Maðurinn minn rakaði síðan af mér allt hárið einn daginn og það kom grátt til baka. Þá ákvað ég að leyfa því bara að vera gráu,“ segir hún og hlær. „Ég fékk mér voða fína hárkollu sem ég notaði lítið en lærði að hnýta klúta um höfuðið hjá Ljósinu. Það er hægt að gera smart höfuðföt með fallegum slæðum,“ segir Auður sem eins og hinar er vel gift og hefur fengið mikinn stuðning frá fjölskyldunni í gegnum veikindin. Hún var frá störfum í tíu mánuði en er komin aftur á fullt í vinnu.

Lét taka bæði brjóstin

Sigurlaug Benediktsdóttir er einnig sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp. Hún greindist aðeins 38 ára þegar hún fór í myndatöku í Lundi í Svíþjóð þar sem hún var búsett. Í framhaldinu fór hún í sónar sem sýndi greinilegt æxli í brjósti á byrjunarstigi. Í Svíþjóð þarf að bíða í fimm til sex vikur eftir aðgerð. Sigurlaug segir að það hafi verið mjög erfiður tími. Boðleiðirnar séu mun lengri í Svíþjóð en hér á landi. „Það er erfitt að vera með hugann tepptan við nýgreindan sjúkdóminn og þá er gott að geta farið í vinnuna og hugsað um eitthvað annað. Það hjálpaði mér þó að ég var með lítil börn til að hugsa um, það yngsta þriggja ára. Ég sagði auðvitað vinnufélögum mínum frá þessu og það var tekið tillit til mín, ég slapp við vaktir og erfiðar móttökur. Ég sinnti kennslu því meira. Maður hefur ekki mikið að gefa þegar maður er í áfalli. Sem betur fer hafði ég nóg að gera með börnunum mínum þremur á þessum tíma.“

Sigurlaug var alltaf hrædd við brjóstakrabbamein þar sem það hafði komið upp í ættinni. „Ég var meðvituð um þetta,“ segir hún. Sigurlaug lét taka bæði brjóstin og þurfti ekki að fara í lyfjameðferð þar sem æxlið uppgötvaðist á byrjunarstigi og hafði ekkert dreift sér. Ég vildi ekki taka þá áhættu að fá brjóstakrabbamein aftur,“ segir hún og ítrekar að í dag sé hún heilbrigð og laus við meinið. Sigurlaug lét byggja brjóstin upp að nýju, eins og María Soffía og Auður. „Ég hugsa ekki lengur um brjóstakrabbameinið sem ógn,“ segir Sigurlaug. „Ég er sloppin og upplifi mig sem heilbrigða konu.“

Þær segja allar að það að greinast með brjóstakrabbamein sé ákveðin reynsla sem breyti manni. „Það er andlegt og líkamlegt áfall að greinast og fara í brottnám á brjósti. Þessi reynsla dýpkar mann sem manneskju og sem lækni,“ segir Sigurlaug. „En það er miklu meiri stuðningur við þá sem greinast hér á landi en í Svíþjóð, til dæmis stuðningshópar.“
Margar sem greinast

Nýlega greindist einn kollegi þeirra úr læknastétt. „Það eru þrettán konur sem starfa sem læknar sem hafa greinst með brjóstakrabbamein og það er áhyggjuefni. Við höfum enga skýringu á því,“ segir Auður. „Það er þó margt sem bendir til þess að læknar og heilbrigðisstarfsfólk sem vinnur vaktavinnu sé móttækilegra fyrir sjúkdómum en aðrir. Reglulegur svefn er mikil­vægur. Sjálfsagt verður einhvern tíma hægt að rannsaka það betur. Við höfum heyrt af kvenkynslæknum sem segjast vera hættar að vera með farsímann í vinstri brjóstvasa. Mögulega er þessi áhætta alls staðar í umhverfinu en það eru engar vísindalegar rannsóknir sem hafa sýnt það,“ segir Auður. Læknar eru guðir í augum margra. Þess vegna þykir mörgum skrítið þegar læknir greinist með krabbamein. Þær María Soffía, Auður og Sigurlaug fá stundum að heyra setninguna: „Ha, ert þú með brjóstakrabbamein, þú sem ert læknir?“

Dauðans alvara

Þær segjast hvetja allar konur til að þreifa brjóstin reglulega. Það skiptir miklu máli að sjúkdómurinn greinist fljótt. „Það er mikilvægt að þreifa brjóstin í lok blæðinga en þá er auðveldast að finna breytingu. Konur ættu að þekkja brjóstin sín, einnig er hægt að fá leiðsögn um þreifingu á Leitarstöðinni. Brjóstamyndataka á tveggja ára fresti er afar mikilvæg og engin kona ætti að sleppa henni. Þá ættu konur að notfæra sér þá þjónustu að láta taka sýni úr leghálsi. Það eru fáar rannsóknir sem gefa jafn góð svör og leghálsskimun. Með því er hægt að finna forstig sjúkdómsins en það er fátítt í öðrum tegundum. Þær sem komast ekki á Leitarstöðina geta beðið kvensjúkdómalækninn sinn að taka sýni úr leghálsi,“ segja þær. 
„Það hafa orðið gífurlegar framfarir í lækningu á brjóstakrabbameini en að greinast með þennan sjúkdóm er dauðans alvara. Það má heldur ekki einblína bara á brjóstin, þótt það sé langalgengasta krabbamein hjá konum, heldur er líka hægt að fá krabbamein í eggjastokka, ristil, skjaldkirtil og á fleiri stöðum. Við förum öll í gegnum sama ferlið sem greinumst með krabbamein,“ segja þessar flottu konur og vilja taka fram að brjóstakrabbamein sé í flestum tilfellum læknanlegt og lífshorfur kvenna sem greinast á Íslandi með því hæsta sem gerist á heimsvísu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira