Skoðun

Og við hvað vinnur þú svo á daginn?

Tryggvi M. Baldvinsson skrifar
Ég rakst á ofanritað á lista yfir þær spurningar sem tónlistarflytjendur eru hvað þreyttastir á að svara. Ástæðan fyrir meintu óþoli tónlistarfólks á spurningunni er að hún felur í sér þá fordóma að starf listamannsins sé ekki launuð vinna, heldur áhugamál sem hægt sé að stunda meðfram „alvöru“ vinnu. Ef maður rýnir betur í þessa gildishlöðnu spurningu er þó tiltölulega auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að hún eigi fullan rétt á sér. Það eru nefnilega tiltölulega fáir einstaklingar sem hafa tónlistarflutning að aðalstarfi sínu. Það er hins vegar svo að starfsvettvangur tónlistarfólks er miklu stærri en aðeins að flytja tónlist á opinberum vettvangi. Þannig að þó píanistinn á veitingahúsinu, eða söngkonan á kammertónleikunum hafi e.t.v. ekki tónlistarflutning að aðalstarfi eru yfirgnæfandi líkur á að þau séu í „alvöru“ vinnu innan tónlistargeirans. Þannig felur áðurnefnd spurning, ef litið er fram hjá fordómunum, fyrst og fremst í sér vanþekkingu á starfsvettvangi tónlistarfólks í nútíma samfélagi.

Tónlistarkennarar eru stærsta starfsstétt tónlistarfólks hér á landi, en tónlistarskólakerfið er ein mikilvægasta uppspretta íslensks tónlistarlífs. Tónlistarkennarar innan almenna skólakerfisins eru ekki síður mikilvæg starfstétt. Kirkjan er einnig stór vinnustaður tónlistarfólks, bæði við hefðbundnar kirkjuathafnir og ekki síður í almennu safnaðar- og barnastarfi.

Víðfeðmur starfsvettvangur

Þar fyrir utan starfar tónlistarfólk við útvarp, sjónvarp, blöð og tímarit, kvikmyndagerð, á auglýsingastofum, í leikhúsum, við tölvuleikjagerð, hljóðupptökur, hugbúnaðargerð, í heilbrigðisgeiranum, samfélagsþjónustu og stýrir tónlistarstarfi áhugafólks svo fátt eitt sé nefnt. Þegar við þennan stóra hóp bætist vinnustaður á borð við Sinfóníuhljómsveit Íslands þar sem margir af fremstu hljóðfæraleikurum þjóðarinnar starfa má ljóst vera að starfsvettvangur tónlistarinnar á Íslandi er afar víðfeðmur.

Tónlistardeild LHÍ hefur allt frá stofnun kappkostað að undirbúa nemendur sína fyrir störf í tónlist á breiðum grundvelli. Deildin hefur nú útskrifað tæplega 260 tónlistarmenn sem flestir hafa fundið sér starfsvettvang á sviði tónlistarinnar og á flestum, ef ekki öllum, þeim sviðum sem talin voru upp hér að ofan. Sú sérfræðiþekking sem felst í háskólamenntun í tónlist nýtist því ekki einvörðungu til að undirbúa afbragðs tónlistarflytjendur og listamenn heldur tengist hún einnig atvinnulífinu sterkari böndum en margan grunar. Þannig á tónlistarmenntun sinn þátt í að gera íslenskt samfélag sterkara, fjölbreyttara og mannlegra.

Það er mikilvægt að kjósendur kynni sér stefnu stjórnmálaflokkanna í mennta- og menningarmálum í aðdraganda komandi kosninga, því að stefnan í þeim málaflokkum hefur hvað mest áhrif á framtíð okkar sem sjálfstæðrar þjóðar.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×