Innlent

Hörður enn ófundinn heilu ári síðar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Stökkvum af stað við minnsta tilefni, segir Ágúst Svansson.
Stökkvum af stað við minnsta tilefni, segir Ágúst Svansson. vísir/
Hörður Björnsson, sem hvarf sporlaust 14. október í fyrra, er enn ófundinn. Skipulagðri leit var hætt fjórum dögum síðar en lögregla fylgdi eftir öllum þeim ábendingum sem bárust hverju sinni.

Leitin var afar umfangsmikil og notast var við öll verkfæri sem björgunarsveitir höfðu yfir að búa; bíla, sporhunda, dróna, þyrlu og fjölda leitarmanna á jörðu niðri.

Ágúst Svansson, aðalvarstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, stýrði aðgerðunum í fyrra. „Við hoppum alltaf til ef við heyrum eitthvað eða ef við fáum einhverjar vísbendingar. Þetta er mikið tilfinningamál og við fylgjum þessu algjörlega eftir og ef minnsta tilefni er til þá er stokkið af stað,“ segir Ágúst í samtali við Vísi.

Hann segir hins vegar að ábendingar sé hættar að berast. „Við fengum gríðarlegan fjölda ábendinga í fyrra. Þjóðin öll aðstoðaði okkur í þessu og fjölmiðlar líka en það er erfitt að lýsa eftir einstakling í langan tíma.“

Þá segir Ágúst aðspurður að fólk sé úrskurðað látið þremur árum eftir hvarf þeirra.

Hörður Björnsson sást síðast aðfaranótt fimmtudagsins 15. október á Laugarásvegi. Hann er 26 ára, hávaxinn með ljóst sítt hár og rautt skegg.


Tengdar fréttir

Leita að manni sem vill ekki finnast

Á fjórða hundrað manns hafa leitað Harðar Björnssonar frá því á fimmtudag. Lögreglu hafa borist tugir ábendinga um ferðir Harðar en fleiri vísbendingar vantar.

Notaðir eru drónar til að leita úr lofti meðfram ströndum

Harðar Björnssonar er enn leitað af lögreglu. Drónar eru notaðir til að leita meðfram ströndum. Hann hefur verið týndur í rúman mánuð. Lögregla segir ekki útilokað að hann haldi til á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×