Viðskipti erlent

Stefna norska ríkinu til að stöðva olíuleit

Kristján Már Unnarsson skrifar

Greenpeace hefur höfðað mál gegn norska ríkinu vegna olíuleitar og telur að nýjustu útboð í Barentshafi brjóti gegn Parísarsáttmálanum og norsku stjórnarskránni. Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2. 

Greenpeace-félagar hafa verið þekktastir fyrir þá aðferð að klifra upp á borpalla til að mótmæla olíuvinnslu Norðmanna í Barentshafi. Þótt samtökin hafi þannig náð athygli fréttamiðla umheimsins hafa aðgerðirnar til þessa ekki haggað áformum norskra stjórnvalda um meiri olíuvinnslu á norðurslóðum. Greenpeace, í samvinnu við önnur norsk umhverfisverndarsamtök, hafa því ákveðið að fara dómstólaleiðina og í gær höfðuðu þau mál gegn norska ríkinu með þeirri kröfu að nýjustu olíuleitarleyfi verði ógilt.

Leiðtogi Greenpeace í Noregi, Truls Gulowsen, komst í fréttirnar á Íslandi fyrir þremur árum þegar hann stormaði með félögum sínum, klæddum ísbjarnarbúningum, inn á olíuráðstefnu í Osló og tók orðið af Guðna Jóhannessyni orkumálastjóra þegar hann ætlaði að fara að ræða um íslenska Drekasvæðið. 

Norskir grænfriðungar með Truls Gulowsern í fararbroddi gripu orðið af Guðna orkumálastjóra, sem smellti myndum af þeim á símann sinn.

Gulowsen segir málið gegn norska ríkinu höfðað vegna þess að á sama tíma og Erna Solberg forsætisráðherra undirritaði Parísarsáttmálann í vor, og hét þar að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, hafi norsk stjórnvöld opnað á stórfellda nýja olíuleit í Barentshafi. Samtökin ætla þannig að láta reyna á gildi loftlagssáttmálans og beita meðal annars þeim málsrökum að við ákvörðun um olíuleitina hafi ekki verið lagt mat á það hvernig hún samrýmdist markmiðum um að draga úr hlýnun jarðar. 

Jafnframt telja samtökin að aukning olíuleitar brjóti gegn nýlegu ákvæði norsku stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um það að sérhver maður eigi rétt til heilnæms umhverfis og náttúru og að nýta beri náttúruauðlindir á grundvelli langtímasjónarmiða þar sem réttur komandi kynslóða sé einnig tekinn til greina.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×