Innlent

Sigurður Ingi kjörinn formaður Framsóknarflokksins

Atli Ísleifsson skrifar
Sigurður Ingi hlaut 52 prósent atkvæða.
Sigurður Ingi hlaut 52 prósent atkvæða. Vísir/Anton
Sigurður Ingi Jóhannsson var kjörinn nýr formaður Framsóknarflokksins á flokksþingi flokksins í dag. Sigurður Ingi hafði þar betur gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Sigurður Ingi hlaut 52 prósent atkvæða.

Alls höfðu 1.043 manns atkvæðisréttá flokksþinginu, en 703 atkvæði voru greidd.

Sigurður Ingi hlaut 370 atkvæði í kjörinu eða 52,6 prósent. Sigmundur Davíð hlaut 329 atkvæði, eða 46,8 prósent. Þá hlaut Lilja Dögg Alfreðsdóttir þrjú atkvæði í kjörinu.

Sigmundur Davíð tók við formennsku í Framsóknarflokknum árið 2009. Hann tók við embætti forsætisráðherra að loknum kosningum 2013, en sagði af sér í vor í kjölfar mikillar ólgu sem skapaðist eftir Panama-lekann svokallaða. Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins tók þá við embætti forsætisráðherra sem hann hefur gegnt síðan.

Nú þegar úrslit liggja fyrir verður kosið í varaformannsembættið. Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra gefur kost á sér sem varaformaður. Eygló Harðardóttir, félags-og húsnæðismálaráðherra, hafði gefið það út að hún sækist eftir varaformannsembættinu ef skipt verði um formann í flokknum.

Þegar kosið hefur verið um varaformann verður kosið um embætti ritara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×