Sena: Bleik og mjúk

– Jafn falleg innan sem utan!

Segir hann um leið og hann fjarlægir gogginn úr leghálsinum á mér og gefur bendingu um að ég megi standa upp. Hvað á hann við? Ósymmetrísk og loðin? Bleik og mjúk? Viðkvæm og gröð? Svona gæti föðurlega eða afalega læknatýpan sagt en hann er allt of ungur í það hlutverk. Alltof myndarlegur. Úr hans munni er þetta næstum daðurslegt. Kannski er þetta bara einhver frasi. Betra en: „Enga köngulóarvefi að sjá.“

Skrýtið val að sitja allan daginn með dregið fyrir og skoða misheilbrigðar píkur. Langar hann ekki að bjarga mannslífum? Reyndar er algerlega óskiljanlegt hve margir leggja á sig læknisfræðinám og velja ekki að gerast barnaskurðlæknar. Samt skárra að vera kvensjúkdómalæknir en heimilis eða þvagfæra. Kannski er ákveðin áskorun falin í því að segja barnaskólastúlkum að þær séu með lekanda, greina æxli og blöðrur, hjálpa breytingaskeiðskonum með píkuþurrk og veita barnshafandi konum gleðifréttirnar. Nú eða sorgarfréttirnar.

Hvað kallast karlsjúkdómalæknar? Læknar? – Svo er annað. Ég hef ákveðið að taka mér leyfi frá störfum um óákveðinn tíma. En ef þú vilt get ég bent þér á kvensjúkdómalækna sem eru að taka við nýjum skjólstæðingum. Hann hefur heyrt í mér hugsa. Ég þarf að fara að æfa pókerfeisið.

– Hvað kemur til?

– Ég ætla að fara til Zimabwe og starfa þar, að minnsta kosti í nokkra mánuði. Láta gott af mér leiða. Hann reynir að láta þetta hljóma eins og kaldhæðni. Hún fer honum illa. – Má ég koma með? Hann hlær. Það er eins og það komi honum að óvörum. Ætli það sé langt síðan síðast? Hvenær hló ég síðast? Við horfumst í augu aðeins of lengi eftir að hláturinn deyr. Er hann að daðra? Nei, það hljóta að vera einhver persónuleikapróf í klásusnum sem koma í veg fyrir að daðrarar geti gerst kvensjúkdómalæknar. – Það verður svo hringt í þig þegar niðurstöðurnar koma, það tekur vanalega einn, tvo daga. Ég stend upp og finnst viðeigandi að kveðja með handabandi. Ég kemst ekki hjá því að líta á hönd hans og sjá hana fyrir mér inni í leghálsinum mínum. Fallega leghálsinum mínum. Þegar ég er hálfkomin út um dyrnar:

– Ég var að hugsa? Mætti ég kannski hringja í þig þegar ég kem til baka? Frá Zimbabwe. Þetta er kannski ekki alveg eftir bókinni en þú værir ekki skjólstæðingurinn minn lengur… Einmitt. Ef ég gæti fryst tímann og metið stöðuna teldi ég ástæðurnar fyrir því að ég ætti að segja „já“: Myndarlegur, með fallegar hendur (kynþokkafyllsti líkamsparturinn!), ekki of ungur, ekki of gamall, ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af því að honum fyndist píkan mín óaðlaðandi, sá dómur er kominn í hús. Og ástæðurnar fyrir því að ég ætti að segja „nei“: Fullkomið tilfinningalegt limbó mitt. Er grínið ekki að kokkar eldi aldrei heima hjá sér og kvensjúkdómalæknar fari ekki í læknisleik? Er samt ekki bara almennt frekar skrýtið að sofa hjá læknum? Þeir eru þjálfaðir í að nálgast líkama á hlutlausan hátt, pota og banka í þá, taka í sundur og setja aftur saman eins og bilaðar græjur. Ég hef samt ekki tíma fyrir þessar vangaveltur, þær koma eftirá. Innsæið verður að duga:

– Já, já? Ég geng út, sannfærð um að ég sé ekki ólétt eftir allt saman, ég hlýt að vera með egglos ef ég er farin að laða að mér kvensjúkdómalækna þvert á Hippókratesareiðinn. Það stendur kannski ekkert um mök við skjólstæðinga í honum.
 


Hallgerður Hallgrímsdóttir er fastur pistlahöfundur í Glamour en þessi pistill er úr júníblaðinu. Hún er verkefnastjóri og mynd­listarmaður og hefur sýnt ljósmyndir sínar víða um heim. Hún býr og starfar í Reykjavík en flýr reglulega út á land eða úr landi, oftast með fleiri en eina myndavél um hálsinn.