Innlent

Sigmundur Davíð: „Á flokksþinginu og í aðdraganda þess urðu atburðir sem ég hefði ekki trúað að gætu átt sér stað í Framsóknarflokknum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug kona hans eftir formannskjörið á sunnudag þar sem hann laut í lægra haldi fyrir Sigurði Inga.
Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug kona hans eftir formannskjörið á sunnudag þar sem hann laut í lægra haldi fyrir Sigurði Inga. vísir/anton brink
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins trúði því ekki að þeir atburðir sem áttu sér stað á flokksþingi Framsóknarmanna og aðdraganda þess gætu átt sér stað í flokknum. Þess vegna hefur hann ekki viljað ræða við fjölmiðla efitr þingið og segist enn ætla að bíða með það.

Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Sigmundar Davíðs en þar kveðst hann ætla að halda áfram að vinna með félögum sínum í Norðausturkjördæmi, og má ekki skilja orð Sigmundar öðruvísi en svo að hann ætli sér að leiða lista flokksins í kjördæminu þrátt fyrir að hafa tapað formannskjörinu um helgina.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er Sigmundur nú á leiðinni austur á land ásamt Lilju Alfreðsdóttur, nýkjörnum varaformanni Framsóknarflokksins en hún hefur um langt skeið verið einn nánasti samstarfsmaður Sigmundar.

„Ég ætla enn að bíða með að ræða málin í fjölmiðlum en get þó staðfest að mér er ljúft og skylt að vinna áfram með félögum mínum í Norðausturkjördæmi. Gagnvart þeim hef ég tekið að mér skyldur sem ég hef ekki hugsað mér að hverfa frá. Á næstu misserum mun ég þvert á móti fyrst og fremst einbeita mér að því að sinna kjördæminu og málefnum þessm,“ segir Sigmundur Davíð.

Hann lýkur færslunni að þakka vinum sínum og stuðningsfólki í Framsókn sem og fólki utan flokka sem hefur sýnt honum stuðning og sent honum kveðjur.

„Jafnframt heiti ég því að gefast ekki upp á að berjast fyrir því sem ég tel til þess fallið að bæta samfélagið og rétta hlut þeirra sem á er hallað með hverjum sem vill ganga til þeirra verka með mér,“ segir Sigmundur Davíð að lokum en færslu hans má sjá í heild sinni hér að neðan.

Fyrr í dag setti Jóhannes Þór Skúlason aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs færslu á Facebook-síðu sína en þar lýsti hann yfir miklum vonbrigðum með úrslit formannskjörsins auk þess sem hann sagði aðdraganda þess hafa verið ömurlegan.

Vísir spurði Jóhannes nánar út í aðdragandann en hann vildi ekki tjá sig um hann að öðru leyti en því að ýmislegt hafi verið í gangi undir yfirborðinu.


Tengdar fréttir

Segja sannanir fyrir svindli í formannskjöri Framsóknar

Formaður Framsóknarfélagsins í Reykjavík fullyrðir að átt hafi verið við kjörskrá á flokksþinginu um helgina. Borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina segir fjármagnseigendur hafa rænt völdum af grasrótinni.

Sigmundur Davíð áfram í oddvitasætinu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, verður áfram oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi alþingiskosningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×