Innlent

Mamman bað hann að þegja yfir kynferðisofbeldinu

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Móðir hans bað hann að splundra ekki fjölskyldunni og segja engum frá kynferðisofbeldinu sem hann, og tveir bræður hans, urðu fyrir af hendi móðurbróður þeirra. 

Leikarinn, leikskáldið og leikstjórinn Matthew McVarish er fórnarlamb kynferðislegs ofbeldis í æsku.

Í viðleitni sinni til að gera upp fortíðina hefur hann orðið að þekktum baráttumanni gegn kynferðisofbeldi á hendur börnum. Í 20 mánuði gekk hann um 16.000 kílómetra þvert á Evrópu, á árunum 2013 til 2015, og heimsótti höfuðborgir 32 landa í álfunni. Þar hitti hann fyrir ráðamenn í hverri borg og ræddi um hvernig má fyrirbyggja og taka á kynferðisofbeldi gegn börnum. 

Í dag er mamman hans helsti stuðningsmaður, frændinn í fangelsi og Matthew orðinn þekktur baráttumaður gegn kynferðislegri misnotkun barna.

Matthew McVarish sagði sögu sína í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld, en hann er staddur hér á landi til þess að sýna myndina To Kill A Kelpie, sem er byggð á reynslu hans af ofbeldinu, á RIFF.

Þá er Matthew gestur á svokölluðu Barnaverndarþingi, sem ber yfirskriftina Öryggi barna - ný hugsun - ný nálgun og hefst á morgun á Grand hóteli. Á þinginu mun Matthew halda fyrirlestur um baráttu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×