Skoðun

Ferðalag í rétta átt

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Ég var 22 ára gömul þegar ég tók mjög erfiða ákvörðun. Að horfast í augu við sjálfa mig og viðurkenna að ég þyrfti hjálp. Það er vægt til orða tekið að ég hafi stokkið út í djúpu laugina þar sem ég í hvatvísiskasti settist niður og skrifaði grein þar sem ég opinberaði vandamál mitt við átröskun. Ég fékk bara einhvernvegin nóg og ákvað að þessi dagur væri dagurinn minn. Deildi greininni áður en ég einu sinni hringdi í pabba minn því ég gat bara ekki beðið lengur.

Það er erfitt að lifa lífinu með hugarfari og lífsstíl sem er stöðugt að takmarka mann. Stöðugt að takmarka mann við það að ná fram sínu besta, að hafa gaman, að umgangast aðra, að sýna tilfinningar og að lifa lífinu yfir höfuð. Ég var heltekin af átröskun og fórnaði ótrúlega miklu til þess að þóknast henni. Eins dramatískt og það hljómar þá endurheimti ég sjálfa mig þegar ég leitaði mér hjálpar. Ég vissi ekki alveg hvert fyrsta skrefið mitt ætti að vera eftir að ég hafði opinberað veikindin mín fyrir öllum þeim sem höfðu áhuga á að lesa greinina mína, sem reyndust vera ótal margir mér að óviðbúinni. Sem betur fer var mér bent á stórkostlegan sálfræðing, Heiðdísi Sigurðardóttur hjá Heilsustöðinni. Ég leit á tímana hjá henni eins og hvern annan áfanga í skólanum og þetta var áfangi sem ég ætlaði mér að skara fram úr í. Stundum var það erfitt og þreytandi en oftar mjög áhugavert og ég gat gert þetta að mjög skemmtilegu verkefni. Ég lærði alveg ótrúlega mikið bæði af henni og af sjálfri mér og enn þann dag í dag leyfi ég mér að læra heilmikið af sjálfri mér með því sem ég kýs að kalla sjálfsskoðun. Þá fer ég yfir þær röngu beygjur sem ég tók, reyni að skilja afhverju það gerðist, læra þannig af því og gera mitt besta til þess að koma í veg fyrir að það endurtaki sig. Eftir að hafa verið eina önn hjá heilsustöðinni tók við meðferð upp á geðdeild sem ég lauk svo með svo góðum árangri að ég held að það hljóti að jafngilda ágætiseinkunn.

Ég sé ekki í eina sekúndu eftir því að hafa leitað mér hjálpar. Auðvitað koma erfiðir dagar og ég er langt frá því að vera með allt á hreinu. En ég hef lært svo ótrúlega mikið og ég skil allt svo miklu betur. Það er eins og sólskin hafi birst þar sem áður var þoka. Ég skil betur hvernig mér líður, afhverju mér líður þannig og hvað það getur síðan leitt af sér. Ég skil betur hvað það er sem skiptir máli og hversu mikilvægt heilbrigði er. Ég skil betur en nokkru sinni fyrr hvað það er ómetanlegt að geta verið besta útgáfan af sjálfri sér og að geta gert það besta úr öllu sem lífið hefur upp á að bjóða. Það að vera vansæl, orkulaus og stöðugt ósátt til þess að vigtin sýni rétta tölu hefur ekkert gildi fyrir mig lengur.

Eins frábært og það væri að segja að það sé ekkert mál að sigrast á átröskun þá er það ekki staðreyndin. Ég hefði aldrei getað tekið þessi mikilvægu skref í átt að betri heilsu ef ég hefði ekki leitað mér hjálpar. Aukin vitneskja á eigin veikindum er nauðsynlegur þáttur í bataferlinu og með aðstoð fagfólks getur maður fjarlægt sig frá þessum sjúkdómi og þar með farið að sjá hlutina í nýju ljósi. Það gerist alls ekki yfir nóttu en hver einasti dagur þar sem eitt skref er tekið í rétta átt er þess virði. Þó svo að maður fari tvö skref afturábak þá tekurðu ákveðin þrjú skref áfram. Mikilvægast er að skilja sig og vera umburðarlyndur við sig en á sama tíma ákveðinn. Með því að leita sér hjálpar axlar maður ábyrgð og með því að axla ábyrgð er maður fær um að skapa sína eigin hamingju.

Greinin er hluti af greinaskriftaátaki Hugrúnar, nýstofnaðs geðfræðslufélags við Háskóla Íslands, í tilefni Alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins 10. október




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×