Erlent

Faðir Rahami varaði lögreglu við syni sínum 2014

Atli Ísleifsson skrifar
Ahmad Khan Rahami var særður í skotbardaga við lögreglu í gær.
Ahmad Khan Rahami var særður í skotbardaga við lögreglu í gær. Vísir/AFP
Faðir 28 ára karlmanns sem er í haldi lögreglu vegna gruns um sprengjuárás í New York, varaði yfirvöldum við syni sínum árið 2014. Fréttir hafa nú borist um að eiginkona mannsins hafi verið handtekin í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Ahmad Khan Rahami var særður í skotbardaga við lögreglu í gær, en hann er grunaður um aðild að sprengjuárásum í New York og mögulega New Jersey. 29 manns særðust í einni sprengingunni. Rahami hefur verið ákærður fyrir fimm manndrápstilraunir eftir að hafa skotið á lögregluþjóna og sært tvo þeirra.

Faðir Rahami, Mohammad Rahami, segir í samtali við New York Times að hann hafi haft samband við alríkislögregluna FBI árið 2014 og greint frá áhyggjum sínum í kjölfar þess að sonur sinn stakk bróður sinn með hníf.

„Ég fór til FBI þar sem sonur minn átti mjög erfitt. Þeir fylgdust með honum í nærri tvo mánuði og síðan sögðu hann að það væri í lagi með hann, að hann væri ekki hryðjuverkamaður. Nú segja þeir hann hins vegar hryðjuverkamann,“ segir faðirinn sem kveðst hafa greint yfirvöldum frá grunsemdum sínum vegna reiði sinnar þar sem sonur sinn umgekkst glæpamenn og hagaði sér sjálfur sem slíkur.

Bandarískir fjölmiðlar greindu frá því í dag að kona Rahami hafi verið handtekin í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Ekki liggur hvort hún sé grunuð um aðild að ódæðinu. Los Angeles Times segir frá því að hún hafi flogið frá Bandaríkjunum til Pakistan fyrir nokkrum dögum.

Félagar Rahami segja hann hafa breyst í háttum eftir tvær ferðir til Pakistans. Hafi hann sinnt trúnni meira en áður, byrjað að safna skeggi og klæðast hefðbundnum afgönskum fatnaði. „Það var eins og hann varð að allt öðrum manni. Hann varð mjög alvörugefinn og innhverfur,“ segir Flee Jones, sem ólst upp með Rahami í New Jersey.


Tengdar fréttir

Rahami í haldi lögreglu

Einn lögregluþjónn er sagður hafa særst í skotbardaga í New Jersey.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×