Erlent

Rahami ákærður fyrir sprengjuárásirnar í New York og New Jersey

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rahami var handtekinn í gær.
Rahami var handtekinn í gær. Vísir/AFP
Búið er að ákæra Ahmad Khan Rahami fyrir að hafa komið fyrir sprengjum í New York og New Jersey um liðna helgi en sprengja sem sprakk í Chelsea-hverfinu í New York á laugardag særði tuttugu og níu manns.

Áður var búið að ákæra Rahami fyrir tilraun til manndráps á fimm lögreglumönnum þegar hann var handtekinn í bænum Linden í New Jersey í gær. Til átaka kom á milli Rahami og lögreglunnar þar sem Rahami hóf mikla skothríð þegar lögreglumenn komu á vettvang til að handtaka hann.

Í ákærunni sem gefin var út í dag er Rahami meðal annars gefið að sök að hafa gjöreyðingarvopn undir höndum og að hafa komið tveimur sprengjum fyrir í Chelsea-hverfinu í New York en önnur þeirra sprakk ekki. Þá er hann einnig ákærður vegna sprengjuárásar í New Jersey en enginn særðist í henni.

Rahami er 28 ára Afgani með bandarískan ríkisborgararétt. Faðir hans varaði yfirvöld við syni sínum árið 2014 en í samtali við New York Times segir faðirinn að hann hafi haft samband við Bandarísku alríkislögregluna og lýst yfir áhyggjum vegna sonar síns þar sem hann hafði stungið bróður sinn með hníf.

Alríkislögreglan á að hafa fylgst með Rahami í tvo mánuði en síðan ályktað að allt væri í góðu með hann og að hann væri ekki hryðjuverkamaður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×