Viðskipti innlent

Fjárfesting í innviðum hefur skilað sér

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sjóklæðagerðin er í eigu hjónanna Helga Rúnars Óskarssonar og Bjarneyjar Harðardóttur.
Sjóklæðagerðin er í eigu hjónanna Helga Rúnars Óskarssonar og Bjarneyjar Harðardóttur. Mynd/66°NORÐUR
Sjóklæðagerðin 66°NORÐUR hagnaðist um rúma tvo milljarða á síðasta ári. Séu einskiptisaðgerðir og skipulagsbreytingar teknar út fyrir sviga nemur hagnaður félagsins 178 milljónum króna og nam vöxtur hagnaðar hjá fyrirtækinu rúmum átta prósentum á milli ára.

„Við gerðum á árinu ákveðnar skipulagsbreytingar sem kalla á skýringar. Fyrirtækið er ekki að skila methagnaði þótt tölurnar gætu við fyrstu sýn gefið annað í skyn,“ segir Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri Sjó­klæða­gerðar­innar 66°Norður.

Á árinu ákváðu eigendur félagsins að skipta félaginu upp í tvær einingar og er breytingin gerð til þess að skilja að ólíka þætti rekstursins, annars vegar framleiðslu útivistar- og vinnu­fatn­að­ar undir hatti Sjóklæðagerðarinnar, en hins vegar framleiðslu ullar- og gjafavöru undir félaginu Rammagerðin Holding. Við þessa breytingu myndaðist söluhagnaður í bókum Sjóklæðagerðarinnar upp á rúmar 1.852 milljónir króna. Félögin eru bæði að fullu í eigu eignarhaldsfélags í eigu hjónanna Helga Rúnars Óskarssonar og Bjarneyjar Harðardóttur.

Rekstrartekjur Sjóklæðagerðarinnar námu 3,5 milljörðum króna árið 2015 og drógust saman milli ára. Eigið fé nam 2,3 milljörðum í árslok og hækkaði um tæpa tvo milljarða milli ára, meðal annars vegna breytinganna.

„Afkoman er ásættanleg og reksturinn hefur gengið vel,“ segir Helgi. „Aukin kaup Íslendinga á merkinu og fjölgun ferðamanna hefur hjálpað til. Við erum búin að vera að styrkja línuna okkar mikið og bæta inn mörgum vörum,“ segir Helgi.

Fyrirtækið rekur tíu verslanir 66° Norður á Íslandi og tvær í Kaupmannahöfn í Danmörku. Auk þess starfrækir Rammagerðin (í eigu hjónanna) sex verslanir.

„Það er búið að ganga mjög vel í Kaupmannahöfn, við erum að sjá góða söluaukningu í búðinni sem er búin að vera opin lengur en í eitt ár. Við munum einbeita okkur að því að reka þessar verslanir vel en svo sjáum við til hvort við opnum aðrar í Kaupmannahöfn eða annars staðar. Það er ekkert sem við erum búin að negla niður, við erum bara að skoða það,“ segir Helgi.

Að sögn Helga fer langstærsti hluti sölunnar í Rammagerðinni til ferðamanna.

„En við sjáum að Íslendingar eru í auknum mæli að kaupa hjá okkur þar íslenskt handverk. Íslendingar eru svo langstærsti viðskiptamannahópur 66°Norður á Íslandi.“

Helgi segir að gott gengi hjá félaginu megi rekja til mikillar uppbyggingar innan fyrirtækisins.

„Við höfum notað mikið fjármagn í að fjárfesta í vörulínunni, markaðssetningunni og nýjum verslunum undanfarin ár. Við viljum leggja áherslu á að svona hlutir gerast ekki af sjálfum sér.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×