Fótbolti

Myndbandsdómari rak leikmann af velli í hollensku bikarkeppninni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anouar Kali, leikmaður Willem II, varð í gær þess vafasama heiðurs aðnjótandi að vera fyrsti leikmaðurinn í Hollandi sem er rekinn af velli af myndbandsdómara.

Willem II sótti Ajax heim í hollensku bikarkeppninni í gær og átti erfitt uppdráttar. Staðan var 2-0 í hálfleik, Ajax í vil, og á síðustu 18 mínútum bættu heimamenn svo þremur mörkum við.

Á þeim tíma voru þeir manni fleiri eftir að Kali fékk rauða spjaldið á 58. mínútu. Dómari leiksins, Danny Makkelie, byrjaði á að gefa Túnisanum gula spjaldið fyrir brot á Lasse Schöne, leikmanni Ajax.

Nokkrum sekúndum síðar breyttist gult spjald í rautt eftir ábendingu frá myndbandsdómaranum Pol van Boekel sem sat í litlum sjónvarpsbíl með sex skjáum. Hann mat það sem svo að brot Kalis verðskuldaði rautt spjald og kom því áleiðis til Makkelie sem rak Túnisann út af.

Þetta er í fyrsta sinn sem myndbandsdómari grípur inn í leik í Hollandi með þessum hætti.

Makkelie og Van Boekel munu skipta um hlutverk í dag þegar Feyenoord tekur á móti Oss. Makkelie verður í sjónvarpsbílnum en Van Boekel úti á vellinum.

Notkun myndbandsupptakna hefur aukist mikið að undanförnu en fyrr í þessum mánuði var hún t.d. notuð í vináttulandsleik Ítalíu og Þýskalands í Bari.

Gianni Infantino, forseti FIFA, er mikill stuðningsmaður þess að tæknin sé notuð til að hjálpa dómurum. Hann var ánægður með hvernig til tókst í Bari og vill að myndbandsupptökur verði notaðar á HM 2018 í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×