Skoðun
Lúðvíg Lárusson.

Jafnt vægi atkvæða til Alþingiskosninga

Lúðvíg Lárusson skrifar

Við félagar í nýja frjálslynda stjórnmálaaflinu Viðreisn viljum færa ferskan blæ inn í ákvarðanaferli á Alþingi, þar sem viss stöðnun ríkir. Afdráttarlausar tilraunir hafa verið gerðar til að viðhalda gamaldags hagsmunagæslu í anda þess að breyta ekki neinu sem hróflar við kerfinu. Hvers vegna ættu ráðamenn að breyta kosningakerfi sem búið er að lappa upp á aftur og aftur til að tryggja sama valdajafnvægi?
Að jafna vægi atkvæða ætti í fljótu bragði að endurspegla beinna lýðræði, því þingmenn eru fyrir kjósendur, en ekki öfugt. Þá komum við að spurningunni um búsetuna. Vinna þarf að því að þéttbýli og dreifbýli séu í sama liði, því hagsmunirnir fara nefnilega saman þegar atvinnumöguleikar eru svipaðir, sbr. ferðamannaiðnaður.
Stjórnlagaráð fékk á sínum tíma Birgi Guðmundsson dósent og Grétar Þór Eyþórsson prófessor, báða við Háskólann á Akureyri, til að gera fræðilega úttekt á áhrifum þess að jafna vægi atkvæða og er hún vel þess virði að lesa. Ein af röksemdunum fyrir hinu pólitíska réttlæti að vægi atkvæða sé jafnt er tekin frá Noregi, en árið 1917 völdu Norðmenn að auka vægi hinna dreifðari byggða, þar sem kjósendur höfðu minni tök á því að hafa áhrif á norska þingið sem situr í Osló.
Þetta er varla forsenda í dag með breyttri tækni, útbreiðslu samfélagsmiðla, áhrifum hagsmunasamtaka og almennu aðgengi að upplýsingum án tillits til búsetu. Svona breytist samfélagsgerðin í tímanna rás, en enn er verið að reyna að finna réttu formúluna með kjördæmamöndli til að finna ‚‚réttara'' fyrirkomulag í samfélagi, sem tekur stöðugum breytingum hvað varðar búsetu og atvinnuhætti.
Væri landið eitt kjördæmi þyrftu þingmenn að horfast í augu við að verða fulltrúar alls landsins óháð kjördæmum og gætu því hafið sig yfir flokkadrætti og kjördæmapot og hugsað um hag heildarinnar. Líklegast yrði þetta æskileg þróun, sem leiddi til að ábyrgðartilfinning gagnvart kjósendum ykist. Full ástæða er til að skapa aukið réttlæti og jafnvægi fyrir alla, þar sem almannaheill er í fyrirrúmi. Það er stefna Viðreisnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira