
Fiskeldi útlendinga
Að undanförnu hefur Gunnlaugur Stefánsson í Heydölum haft uppi þörf aðvörunarorð í Fréttablaðinu og Bændablaðinu um yfirvofandi, varanlegt og óafturkræft tjón á lífríkinu við Ísland verði fiskeldið ekki skikkað til að ganga sómasamlega um lífríkið. Ekki hefur staðið á svörum frá forsvarsmönnum þaðan enda vasar hinna erlendu eigenda djúpir. Því miður hafa svörin verið heldur ómálefnaleg. Þeir skauta alfarið framhjá því að ræða hið margvíslega tjón sem starfsemi þeirra mun valda ef ekki verður gripið í taumana. Alvarlegast og siðferðilega óverjandi er yfirvofandi óafturkræft tjón á lífríkinu. Hvernig dettur hinum erlendu eigendum í hug að þeir komist upp með að ganga þannig um náttúru landsins? Og vaða í leiðinni yfir þá sem byggja afkomu sína á einstakri náttúru, ferðaþjónustunni, smábátasjómönnum og fleirum?
Erfðamengun
Rannsóknir hafa sýnt að erfðasamsetning norska laxastofnsins sem nýttur er í eldinu er mjög frábrugðin erfðasamsetningu náttúrulegu stofnanna sem þróast hafa árþúsundum saman í ám landsins. Stroklaxar úr eldi ganga upp í ár í allt að nokkur hundruð kílómetra fjarlægð, hrygna þar og brengla erfðamengið sem aðlagað er viðkomandi árkerfi og valda í framhaldinu viðkomubresti. Um þetta eru vísindamenn sammála.
Fiskeldið með hinum framandi norska stofni er enn hættulegra lífríkinu hér við land en í Noregi þar sem íslenskir laxastofnar eru erfðafræðilega svo fjarskyldir norskum stofnum. Norskur eldisstofn fékkst fluttur inn til landsins fyrir 30 árum gegn loforði Landssambands fiskeldisstöðva um að hann yrði aldrei nýttur í kvíaeldi við Ísland, aðeins landeldi. Það loforð hafa eldismenn svikið rækilega og dæmi hver fyrir sig um innrætið.
Stroklaxar
Sleppingar úr eldinu eru staðreynd. Bæði getur verið um minni sleppingar að ræða svo sem þegar skrúfa fóðurbáts rakst í net kvíar í Berufirði nýlega og fjöldi fiska fann gatið, og allt upp í að einstök eldiskví gefur sig í heilu lagi með allt að 200.000 norskum eldislöxum. Mat Veiðimálastofnunar er að fyrir hvert tonn framleitt í eldi megi að jafnaði reikna með einum stroklaxi. Þannig muni árlega sleppa 100.000 stroklaxar úr fyrirhuguðu 100.000 tonna eldi við Ísland. Mun fleiri en árlegur fjöldi veiddra laxa af náttúrulegum uppruna.
Staðreyndir frá Noregi
Eldisaðilar í Noregi gáfu upp um 300.000 stroklaxa árið 2014 en Hafrannsóknarstofnun Noregs álítur að raunfjöldi stroklaxa sé tvöföld til fjórföld sú tala. Vísindamenn telja því að árlega sleppi um ein milljón stroklaxa úr eldi í Noregi, nálægt einum laxi fyrir hvert tonn sem framleitt er. Staðreyndirnar tala sínu máli og óraunhæft að gera ráð fyrir lægra sleppihlutfalli í eldi hér við land vegna erfiðs sjólags, lagnaðarísa, mögulegs hafíss og annarrar óáranar.
Nú er svo komið að náttúrulegir laxastofnar í Noregi hafa látið verulega á sjá. Heildarstofnstærðin er innan við helmingur af því sem hún var fyrir 30 árum og stofnum í einstaka ám ýmist verið eytt eða þeir í stórhættu. Niðurstöður nýrrar rannsóknar norsku náttúrufræðistofnunarinnar (NINA) sem birtar voru á þessu ári sýna að tveir af hverjum þremur náttúrulegum stofnum í Noregi eru orðnir erfðafræðilega brenglaðir af völdum stroklaxa úr eldi. Þarf frekari vitnanna við?
Í ljósi þessara alvarlegu afleiðinga hafa Norðmenn hafið tilraunir með ófrjóan eldislax en auðvelt og ódýrt er að gelda eldislax með því að þrýstimeðhöndla hrognin. Eldið með ófrjóa fiskinn hefur gengið á kaldari svæðum í Noregi. Því ætti að vera vandalítið fyrir eldið hér á landi að nýta þessa tækni. Ekkert frumkvæði er að sjá í þá átt.
Náttúruunnendur, almenningur og stjórnkerfið verða að grípa í taumana og koma í veg fyrir að fiskeldið valdi varanlegu og óafturkræfu tjóni á íslenskri náttúru.
Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.
Skoðun

Símalaus skóli
Kolbrún Baldursdóttir skrifar

Tækifæri
Kjartan Hreinn Njálsson skrifar

Samtal um snjallsíma
Valgerður Sigurðarsdóttir skrifar

Birting dóma þegar þolendur eru börn
Salvör Nordal skrifar

Jón eða séra Jóna
Haukur Örn Birgisson skrifar

Dagskrárvald í umhverfismálum
Guðmundur Andri Thorsson skrifar

Alls kyns kyn
Guðmundur Steingrímsson skrifar

Ákall æskunnar
Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar

Verkalýðsfélög eiga að hafa skoðun á samfélaginu!
Kristján Þórður Snæbjarnarson skrifar

Hvað er svona merkilegt við það að vera starfsmaður?
Hrefna Sigurjónsdóttir skrifar

Svar við opnu bréfi Yair Sapir
Hjálmtýr Heiðdal skrifar

Hver er besti vinur fjármálaráðherra?
Þórir Garðarsson skrifar

Lífskjarabati síðustu ár með fádæmum - árangur Þjóðarsáttarinnar
Kristinn H. Gunnarsson skrifar

Til ritstjóra DV
Ívar Halldórsson skrifar

Taktleysi
Hörður Ægisson skrifar