Skoðun

Fríar tannlækningar? Slæm hugmynd

Guðmundur Edgarsson skrifar
Píratar samþykktu nýlega þá stefnuyfirlýsingu að tannlækningar skyldu framvegis verða niðurgreiddar að fullu. Gallinn er hins vegar sá að góðmennskan ein dugar skammt til að sjá fyrir afleiðingar hugmynda sem byggja á óskhyggju fremur en raunhyggju. Gjaldfrjálsar tannlækningar eru því miður enn eitt dæmið um slíkar hugmyndir eins og hér verður nú reifað.

Kostnaður ríkisins snarhækkar

Ef tannhirða er góð og neyslu sælgætis og gosdrykkja stillt í hóf, þá eru takmarkaðar líkur á að fá tannskemmdir, a.m.k. af því tagi sem verða íþyngjandi vegna kostnaðar. Því er eðlilegt að fólk beri sjálft ábyrgð á tannheilsu sinni en varpi henni ekki yfir á samborgara sína. Þótt tannskemmdir einar og sér ýti við fólki til að hugsa vel um tennur sínar þá hefur kostnaður vegna hugsanlegra tannviðgerða einnig fælingarmátt. Ef sá þáttur er tekinn út, slaknar á þeirri umhirðu sem góð tannheilsa krefst. Því má búast við að tannskemmdum fjölgi í kjölfarið með tilheyrandi kostnaði fyrir skattgreiðendur. Ennfremur er sennilegt að tannlæknar muni smám saman hækka verð þar sem ekki þarf lengur að horfa beint framan í kúnnann í samkeppnisumhverfi heldur ávísa reikningnum á andlitslausa ríkisstofnun.

Aukum samkeppni

Skilvirkasta leiðin til að ná niður kostnaði vegna tannskemmda er að auka frelsi og samkeppni. Hér á landi hafa lengi tíðkast stífar fjöldatakmarkanir í tannlæknanám. Að minnsta kosti er ljóst að fjöldi tannlækna hér á landi væri mun meiri ef þeim flöskuhálsi væri rutt úr vegi. Þá yrði samkeppni tannlækna mun meiri sem svo aftur myndi leiða til lægra verðs.

Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×