Íslenski boltinn

Arnar: Sjáum hvort að FH geri okkur greiða og tapi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks.
Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks. vísir/stefán
Arnar Grétarsson var hæstánægður eftir að hans menn í Breiðabliki unnu dramatískan 2-1 sigur á Stjörnunni á Kópavogsvelli í Pepsi-deild karla í dag.

Höskuldur Gunnlaugsson kom inn á sem varamaður í leiknum og skoraði sigurmarkið með skalla á 90. mínútu.

„Ég er ánægður með að fá þrjú stig og ég er mjög ánægður fyrir hönd Höskuldar. Það er gaman fyrir hann að hafa skorað sigurmarkið,“ sagði Arnar við Vísi eftir leikinn.

„Mér fannst þetta verðskuldað hjá okkur. Við fengum heilt yfir hættulegri færi, þó svo að við höfum oft spilað betur en við gerðum í dag. Fyrri hálfleikur var slakari en seinni allt í lagi.“

„Ég var byrjaður að naga mig í handabökin að hafa ekki nýtt færin okkar og orðinn hræddur um að þetta yrði bara eitt stig í dag. En þetta var gríðarlega mikilvægur sigur.“

FH er nú með fjögurra stiga forystu á Breiðablik en á leik til góða gegn Víkingi Ólafsvík á morgun. FH og Blikar mætast svo í Kaplakrika í fyrsta leik eftir landsleikjahlé.

„Við skulum sjá til hvað gerist ef FH gerir okkur greiða á morgun og tapar. Þá fáum við skemmtilegan leik þegar við mætum þeim,“ sagði Arnar.

„En ég er ekkert að hugsa um titilinn. Við erum aðallega í því að berjast um annað sætið og við skulum sjá til hvað gerist á morgun og hvort að hitt verður í boði.“


Tengdar fréttir

Rúnar Páll: Ömurleg dekkning

Rúnar Páll Sigmundsson segir það skelfilegt að hafa tapað enn einum leiknum í Pepsi-deild karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×