Erlent

Eiginkona Weiner komin með nóg eftir að hann var gripinn í bólinu í þriðja sinn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Abedin og Weiner meðan allt lék í lyndi.
Abedin og Weiner meðan allt lék í lyndi. Vísir/EPA
Einn helsti ráðgjafi Hillary Clinton, Huma Abedin, hefur tilkynnt að hún muni segja skilið við eiginmann sinn, hinn umdeilda fyrrum þingmann og borgarstjóraefni Anthony Weiner, eftir að upp komst um þriðja kynlífshneykslið sem hann á þátt í.

Í gær birti New York Post ítarlega umfjöllun þar sem birtar voru myndir og skilaboð sem Weiner og önnur kona sendu sín á milli og þættu ekki vænlegar til þess að byggja upp stöðugt hjónaband. Á einni myndinni sem Weinder sendi er hann ber að ofan og sést í sofandi son hans og Abedin sem þau eignuðust árið 2011.

Weiner var mikið í fréttunum árið 2011 þegar hann neyddist til þess að segja af sér þingmennsku eftir að hafa, að eigin sögn, óvart sent djarfa myndir á aðrar konur en eiginkonu sína.

Þá reyndi hann að snúa aftur í stjórnálin árið 2013 en aftur vildi svo til að djarfar myndir sem hann sendi til annarra kvenna fóru í umferð. Í bæði skiptin stóð Abedin með honum en nú hefur hún fengið nóg og sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis í dag.

Abedin er einn af lykilstarfsmönnum kosningabaráttu Hillary Clinton í forsetakosningunum í Bandaríkjunum og þykir líklegt að hlutverk hennar í Hvíta húsinu verði mikilvægt takist Clinton að sigra í kosningunum í haust.

Fyrr á árinu kom út heimildarmynd um Weiner og þótti hún bera þess merki að hann stefndi á endurkomu í stjórnmálin. Ljóst þykir að sú endurkoma, hafi hún verið á döfinni, sé endanlega úr sögunni nú.


Tengdar fréttir

Klámhundurinn Weiner enn í veseni

Borgarstjóraefnið í New York, Anthony Weiner, virðist ekki geta stillt sig þegar netið er annars vegar; enn hefur hann verið gripinn við þá iðju að senda konum kámfengin skilaboð og myndir á netinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×