Erlent

Fallið frá öllum ákærum vegna dauða Freddie Gray

Birgir Olgeirsson skrifar
Marilyn Mosby, fyrir miðju, segir niðurstöðuna pínlega.
Marilyn Mosby, fyrir miðju, segir niðurstöðuna pínlega. Vísir/EPA
Fallið hefur verið frá öllum ákærum á hendur þremur lögreglumönnum í Bandaríkjunum sem biðu réttarhalda vegna dauða Freddie Gray sem lést af völdum áverka sem hann hlaut á hálsi á meðan hann var í haldi lögreglu í Baltimore í apríl í fyrra.

Sex lögreglumenn voru ákærðir vegna málsins en þrír höfðu áður verið sýknaðir. Dauði Gray olli miklum mótmælum í á meðal þeldökkra Bandaríkjamanna. Baltimore-borg varð að miðpunkti Black Lives Matter-hreyfingarinnar og umræðu um harðræði lögreglumanna í garð svartra í Bandaríkjunum.

Fréttastofa CNN hefur eftir saksóknaranum í BaltimoreMarilyn Mosby, að þessi ákvörðun að falla frá ákærum á hendur lögreglumannanna þriggja sem eftir stóðu hafi verið pínleg.

Fyrir rúmu ári stóð hún við dómhúsið í Baltimore og tilkynnti um ákærurnar á hendur lögreglumannanna og sagði: „Enginn er hafinn yfir lögin.“

Hún sagði við fjölmiðla í dag að hún telji Gray hafa verið myrtan. Hún sagðist átta sig á því nú að réttarkerfið í Bandaríkjunum þurfi á raunverulegri endurnýjun að halda svo hægt verði að gera lögreglumenn ábyrga fyrir gjörðum sínum.

„Við gætum reynt við svona mál 100 sinnum, og önnur álíka mál, en við myndum alltaf enda með sömu niðurstöðu,“ sagði Mosby. Hún sagði þetta mál sýna fram á eðlislæga hlutdrægni í kerfi þar sem lögreglumenn vernda hvorn annan. 

Sjá má blaðamannafund Mosby hér fyrir neðan:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×