Erlent

Ljósmynd af handtöku þeldökkrar konu í Baton Rouge lýst sem goðsagnakenndri

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá mótmælum í Baton Rouge.
Frá mótmælum í Baton Rouge. vísir/getty

Myndin hér að neðan hefur farið eins og eldur í sinu um internetið seinasta sólarhringinn en hún sýnir lögregluna í Baton Rouge í Louisiana handtaka svarta konu sem tók þátt í mótmælum í borginni um helgina.

Boðað var til mótmælanna vegna þess að lögreglan skaut þeldökkan mann, Alton Sterling, til bana í Baton Rouge í liðinni viku. Myndband náðist af því þegar tveir hvítir lögreglumenn skutu Sterling en lögreglan hafði fengið tilkynningu um vopnaðan mann sem var að ógna fólki.Konan á myndinni heitir Leshia Evans en hún er ein af 120 mótmælendum sem lögreglan í Baton Rouge hefur handtekið seinustu daga, en mótmælin eru skipulögð af grasrótarhreyfingunni Black Lives Matter.

Fjöldi fólks hefur deilt myndinni á samfélagsmiðlum en ljósmyndari, Jonathan Bachman, sem tók myndina fyrir Reuters segir að hann sé fullur auðmýktar yfir því að hafa tekið mynd sem fangi svo vel það sem sé að gerast í Baton Rouge.

„Konan var ekki ógnandi við lögregluna og ég held að þessi mynd sýni vel þessi friðsömu mótmæli sem hafa verið hér. Fólk er mjög reitt og þeim líður mjög illa en enginn hefur beitt ofbeldi,“ segir Bachman en Evans var handtekin vegna þess að hún neitaði að færa sig af götunni þegar lögreglan bað hana um það.

Myndinni hefur verið líkt sem goðsagnakenndri og vilja margir meina hún sé ein besta fréttaljósmynd seinustu ára. Evans var sleppt úr haldi lögreglu í gærkvöldi og var því í fangelsi í um sólarhring.


Tengdar fréttir

Obama tjáir sig um dauða Sterling og Castile

"Við höfum séð harmleiki sem þessa alltof oft og hjörtu okkar slá fyrir fjölskyldurnar og samfélögin sem þjást yfir missi sínum,“ skrifaði Obama í yfirlýsingu á Facebook-síðu sína í kvöld.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.