Viðskipti innlent

Gera út á vísindamenn sem rannsaka loftlagsbreytingar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Náttúrurannsóknastöð, sem stofnuð var á Raufarhöfn fyrir tveimur árum, hefur fallið í frjóan jarðveg meðal vísindamanna. Stöðin er hluti alþjóðasamstarfs vísindarannsókna á norðurslóðum. Í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér að ofan, var rætt við Jónínu Sigríði Þorláksdóttur, verkefnisstjóra Rannsóknastöðvarinnar Rifs. 

Rannsóknastöðin Rif byrjaði sem hugmynd til að treysta byggð á Raufarhöfn, en vísindamönnum býðst umhverfi til náttúrufarsrannsókna á Sléttu og vinnuaðstaða og gisting í Hreiðrinu.

Raufarhöfn og nágrenni er rannsóknarvettvangurinn.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
„Fyrsta alvöru sumarið var í fyrra. Starfsemin virðist ætla að aukast mjög mikið milli ára núna, sem ég er mjög ánægð með,“ segir Jónína.

-Er þetta að virka? 

„Þetta virðist vera að virka. Það virðist bara að um leið og þú ert kominn með einhvern  svona vettvang og aðstöðu, þá virðist fólk sækja í þetta. Þú þarf bara að skapa smá jarðveg, - allavega þá er búin að vera mjög mikil aukning á umsóknum og starfsemi á milli ára, bara frá því í fyrra.“ 

Rannsóknastöðin hefur eyðijörðina Rif til umráða sem er sú nyrsta á landinu fyrir utan Grímsey. 

„Við erum náttúrlega bara mjög stutt frá norðurpólnum, bara héðan“ segir Jónína og hlær.

Frá Skinnalóni á Sléttu, sem er á milli Rifstanga og Raufarhafnartanga.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Rif er orðinn hluti alþjóðasamstarfs á norðurslóðum, þar sem flest snýst um loftlagsbreytingar. 

„Það eru 77 rannsóknastöðvar allt í kringum norðurpólinn sem eru hluti af þessu samstarfi. Þetta er mjög mikilvægt fyrir okkur, af því að þá er þetta samstarf við þessar stöðvar. Vísindamenn geta þá komið á svæðin og gert samanburðarrannsóknir.

Þetta hefur svo mikið gildi fyrir alþjóðasamfélagið að fá svona heildræna vöktun og heildræna sýn á hvað ert að gerast í sambandi við loftlagsbreytingar og slíkt.“ 

Öll Melrakkaslétta er í raun rannsóknarvettvangur fyrir doktors- og meistarnema í líffræði en jafnframt hafa ýmsar stofnanir hafið gróður- og fuglavöktun.

Rannsóknarstöðin Rif er í samstarfi við gistiheimilið Hreiðrið og er með vinnustofur á fyrstu hæð hússins.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Þegar við ræddum við Jónínu var von á alþjóðlegum háskólahópi til nokkurra daga dvalar. Hópurinn er á sumarnámskeiði í örveruvistfræði norðurslóða; 30 nemendur og 16 kennarar og starfsmenn með, frá Bretlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Kólumbíu og Íslandi. Gistiheimilið dugar ekki, grunnskólann þarf líka undir svo stóran hóp. 

Sjálf er Jónína frá Svalbarði í Þistilfirði, líffræðingur að mennt með meistaragráðu í umhverfis - og auðlindafræði. 

„Ég bjóst nú ekki við að geta komið aftur á svæðið og fengið vinnu við það sem ég var búin að læra. Þetta var fátt um fína drætti þannig að þetta var bara mjög skemmtilegt tækifæri fyrir mig,“ segir Jónína Sigríður Þorláksdóttir, líffræðingur og verkefnisstjóri Rannsóknastöðvarinnar Rifs.

Frá Raufarhöfn. Kirkjan var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni og byggð árið 1928.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Tengdar fréttir

Vísindi norðurslóða styrkt

Ríkisstjórn Íslands ætlar að veita fé til reksturs Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar til næstu fimm ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×