Erlent

Goðsagnakennda myndin frá Baton Rouge: „Ég er farvegurinn“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ieshia Evans tók þátt í mótmælum í Baton Rouge um helgina.
Ieshia Evans tók þátt í mótmælum í Baton Rouge um helgina. Vísir/EPA
„Ég er þakklát fyrir velvildina og ástarkveðjurnar en þetta er verk Guðs. Ég er farvegurinn. Dýrð sé Guði í upphæðum.“

Þetta skrifar Ieshia Evans á Facebook-síðu sína en hún er svarta konan sem náðist á mynd þegar hún var handtekin  í Baton Rouge þar sem hún mótmælti friðsamlega í síðum kjól og tátiljum. Myndin hefur farið sigurgöngu um veraldarvefinn en fjölmargir hafa deilt henni og lofað Evans. Evans var ein af 132 sem handteknir voru þennan dag en handtakan átti sér stað á laugardaginn síðastliðinn. Myndina má sjá hér að neðan.

Mótmælt hefur verið að undanförnu í Baton Rouge eftir að lögreglan skaut þeldökkan mann, Alton Sterling, til bana í Baton Rouge í liðinni viku. Myndband náðist af því þegar tveir hvítir lögreglumenn skutu Sterling en lögreglan hafði fengið tilkynningu um vopnaðan mann sem var að ógna fólki.

 

BBC er einn þeirra miðla sem vitnar í Facebook-síðu Ieshia Evans en erlendir fjölmiðlar hafa ekki enn tekið viðtal við Evans sem er hjúkrunarkona. Hún segir sjálf í öðrum Facebook-ummælum að hún vilji ekki að vinir sínir séu að veita viðtöl fyrir hennar hönd eða um hana, hún kjósi heldur að fá tækifæri til þess að tala fyrir sjálfa sig.

Daily Mail hefur skrifað um Evans og hefur hún sjálf deilt fréttinni en bætir við að í henni sé ekki öll sagan sögð. Þar er sagt frá því að hún sé 28 ára gömul og hafi komið alla leið frá New York til þess að taka þátt í mótmælunum í Baton Rouge. 

Vitni sagði í samtali við The Atlantic að hún hefði ekki streist á móti þegar hún var handtekin en að hún hefði jafnframt neitað með þögn sinni að færa sig af veginum eins og lögregla skipaði mótmælendum.  

Mótmælin í Baton Rouge hafa verið fremur friðsamleg, í það minnsta að degi til, en þeir sem handteknir voru sakaðir um að hafa tálmað umferðargötu. Evans var haldið í fangageymslu í 24 tíma en sleppt að því loknu. 

Ljósmyndarinn sem var á bakvið linsuna þegar Evans var handtekin heitir Jonathan Bachman og hefur hann hlotið mikið lof fyrir. Þykir myndin einstök táknmynd fyrir baráttuna; hvernig saklaust þeldökkt fólk mætir offorsi af hálfu lögreglunnar. Hér má sjá myndasyrpu af handtökunni og þar sést hvernig Evans hlýðir mótþróalaust eftir að hún er handtekin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×