Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fjölnir - Breiðablik 0-3 | Aftur mistókst Fjölni að komast á toppinn | Sjáðu mörkin

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Kópavogsvelli skrifar
Daniel Bamberg skoraði fyrsta mark Breiðablik.
Daniel Bamberg skoraði fyrsta mark Breiðablik. vísir/hanna
Breiðablik vann sannfærandi 3-0 sigur á Fjölni í Grafarvogi í 11. umferð Pepsi deildar karla í fótbolta í kvöld.

Árni Vilhjálmsson lék sinn fyrsta leik fyrir Breiðablik eftir að hann kom á ný til félagsins í félagaskiptaglugganum sem opnaði 15. júlí og var Árni ekki lengi að setja mark sitt á leikinn.

Árni lagði boltann út á Daniel Bamberg á 18. mínútu og skoraði Bamberg með góðu skoti en Arnór Sveinn Aðalsteinsson sendi boltann á Árna eftir að hafa farið illa með Mario Tadejevic.

Árni lagði upp annað mark fimm mínútum síðar en þá átti hann frábæra sendingu á Gísla Eyjólfsson skoraði með laglegu skoti yfir Þórð Ingason í marki Fjölnis. Snotur afgreiðsla.

Staðan í hálfleik var 2-0 og fékk Fjölnir dauðafæri snemma í seinni hálfleik til að minnka muninn en Gunnleifur Gunnleifsson varði vítaspyrnu Þóris Guðjónssonar.

Án þess að ná að skapa sér mörg færi reyndi Fjölnir hvað það gat og lagði mikla áherslu á sóknarleikinn. Það refsaði Breiðablik þegar Árni Vilhjálmsson lagði upp þriðja markið sem Andri Rafn Yeoman skoraði af stuttu færi í stöngina og inn.

Með sigrinum náði Breiðablik Fjölni að stigum en Fjölnir er í þriðja sætinu á betri markamun en Breiðablik í því fjórða. Liðin eru þremur stigum frá efsta sætinu sem FH situr í.

Fjölni mistókst aðra umferðina í röð að komast í efsta sæti Pepsi deildarinnar.



Af hverju vann Breiðablik?

Breiðablik var einfaldlega miklu sterkari aðilinn í leiknum. Liðið varðist mjög vel gegn annar sterku sóknarliði Fjölnis sem hefur skorað flest mörk allra liða þegar deildin er hálfnuð.

Fyrir utan öfluga vörn og Gunnleif Gunnleifsson í markinu var Breiðablik sterkt fram á við í leiknum. Árni Vilhjálmsson kom inn í liðið eftir veru sína hjá Lilleström í Noregi og munaði miklu um hann í sóknarleiknum en hann lagði upp öll þrjú mörk Breiðabliks í leiknum.

Fjölnismenn voru langt frá sínu besta. Fyrir utan vítaspyrnuna sem liðið nýtti ekki fékk liðið eitt gott færi sem Damir Muminovic bjargaði á marklínu. Breiðablik náði að loka helstu svæðum og komu í veg fyrir að Fjölnir næði að leika sinn leik.



Þessir stóðu upp úr

Árni Vilhjálmsson var magnaður. Fyrir utan að leggja upp mörkin þrjú var hann óþreytandi í vinnusemi sinni og sýndi að líklega fer þar leikmaðurinn sem Breiðablik þarf til að gera alvöru atlögu að Íslandsmeistaratitlinum.

Annars er hægt að telja upp hálft lið Breiðabliks. Liðið lék gríðarlega vel sem heild og hvergi veikan blett að finna. Andri Rafn Yeoman kórónaði frábæran leik sinn með þriðja markinu og miðverðirnir tveir réðu við allt sem Fjölnir reyndi með dyggri hjálp annarra leikmanna í liðinu.

Arnór Sveinn Aðalsteinsson fór mikinn þangað til hann meiddist í fyrri hálfleik og fór illa með Mario Tadejevic vinstri bakvörð Fjölnis í tvígang.



Hvað gekk illa?

Fjölni gekk illa að skapa sér færi. Liðið var langt frá sínu besta og var fátt um fína drætti í sóknarleiknum. Liðið fékk þó vítaspyrnu en liðið náði ekki að breyta leiknum með marki úr henni.

Fjölni gekk einnig illa að ráða við kraftinn í Árna Vilhjálmssyni í sókninni hjá Breiðabliki. Árni virtist pirra varnarmenn Fjölnis sem helltu sér yfir í hann í hvert skipti sem þeir brutu á honum.



Hvað gerist næst

Breiðablik sækir Víking heim í Ólafsvík í næstu umferð en Breiðablik lyfti sér upp fyrir Víking með sigrinum í kvöld. Sama kvöld, eftir slétta viku, tekur Fjölnir á móti Val.

Staðan á toppi deildarinnar er að þéttast. FH er á toppnum, tveimur stigum á undan Stjörnunni og þar stigi á eftir eru Fjölnir og Breiðablik. Tvær umferðir í röð hefur Fjölni mistekist að hrifsa toppsætið af FH en óvíst er hvort liðin fái tækifæri til þess í næstu umferð því þá tekur FH á móti botnliði Þróttar.

Bæði Fjölnir og Breiðablik eru þó í bullandi titilbaráttu þegar deildin er hálfnuð og ef Breiðablik leikur líkt og liðið gerði í kvöld í næstu leikjum skal enginn afskrifa Kópavogsliðið.

Arnar: Kemur okkur vonandi í gang„Þetta er erfiður völlur að koma á og sækja þrjú stig og halda hreinu var mjög gott,“ sagði Arnar Grétarsson þjálfari Breiðabliks eftir sigurinn í kvöld.

„Við skoruðum þrjú mörk og komum okkur í mjög mikið af fínum stöðum og hefðum getað bætt við fleiri mörkum.

„Við höfum átt erfiðar tvær og hálfa viku og vonandi kemur þetta okkur aftur í gang,“ sagði Arnar.

Helsti styrkur Fjölnis í sumar hefur verið að skora mörk og skapa færi. Breiðablik gaf mjög fá færi á sér í leiknum og hélt Fjölni niðri.

„Þetta var Breiðabliksliðið sem maður þekkti frá því í fyrra. Það sem var munur á er að við vorum að skapa og nýta færi sem hefur ekki verið í undanförnum leikjum og það er það sem skiptir máli í þessum fótbolta.“

Árni Vilhjálmsson kom inn í lið Breiðabliks á ný og var Arnar eðlilega ánægður með framlag hans í leiknum.

„Hann var mjög duglegur og vinnusamur. Ég var ánægður með allt liðið og það sem ég var virkilega ánægður að sjá var að Árni var að spila fyrir allt liðið en ekki að spila fyrir sjálfan sig. Þegar það er þannig spila menn yfirleitt vel.

„Það er mikið eftir. Við erum hálfnaðir og við þurfum að halda áfram. Þetta er fljótt að breytast í þessu en um leið og menn ná að taka nokkra leiki í röð þá gætum við verið komnir í mjög góða stöðu en við þurfum að halda okkur við efnið og vera með lappirnar á jörðinni.

„Við erum þremur stigum frá toppnum og við ætlum að blanda okkur í þessa toppbaráttu,“ sagði Arnar.

Árni: Gaman að spila fótboltaÁrni Vilhjálmsson lék sinn fyrsta leik fyrir Breiðablik á ný eftir að hann gekk til liðs við félagið frá norska liðinu Lilleström. Árni minnti hressilega á sig með því að leggja upp öll þrjú mörk liðsins gegn Fjölni í kvöld.

„Það er gaman að fá þrjá punkta. Stoðsendingar er gott og mörk líka en ég er hrikalega sáttur við þrjá punkta,“ sagði Árni.

„Það styttist í toppinn. Mér leist vel á spilamennskuna í kvöld. Við spiluðum vel og sóttum hratt. Ég er einn frammi og er með menn í kringum mig sem hlaupa og opna allt fyrir mig til að geta fengið boltann,“ sagði Árni.

Árni snýr til baka úr atvinnumennsku þar sem tækifærin voru ekki á hverju strái fyrir hann og því líklegt að hann sé ákveðinn í að sanna sig á ný.

„Ég er mjög sáttur við að koma inn í liðið og fá 90 mínútur. Ég fann það á 87. að ég var orðinn þreyttur en þetta var gott og ljúft og gaman. Það var gaman að spila fótbolta.

„Við sýnum að við erum öflugt lið og ætlum að eiga heima í toppbaráttunni,“ sagði Árni sem vildi ekki ganga svo langt að segja að hann sé púslið sem Breiðablik vantaði til að gera alvöru atlögu að Íslandsmeistarartitlinum.

„Nei ég myndi ekki segja það. Við erum með góðan mannskap fyrir og strákarnir eru allir frábærir leikmenn. Ég myndi ekki kalla mig púsluspilið sem vantaði en það er gaman að koma heim.“

Ágúst: Hefðum getað spilað í allt kvöld án þess að skora„Við hefðum getað spilað í allt kvöld án þess að skora. Við fáum víti og hefðum getað komist inn í leikinn en það vantaði að vilja þetta,“ sagði Ágúst Gylfason þjálfari Fjölnis.

„Maður sá þetta á mönnum. Við vorum allt of langt frá þeim og þeir spiluðu eins og við gerðum gegn FH fyrr í sumar. Þetta er of auðvelt fyrir þessi lið.

„Það er mjög slæmt að ná ekki að setja eitt mark hér á heimavelli,“ sagði Ágúst.

Annan leikinn í röð á Fjölnir möguleika á að komast á topp deildarinnar. Liðið virðist hreinlega ekki ráða við pressuna sem því fylgir.

„Mér leiðist allt þetta tal um toppsætið en auðvitað er það þannig að toppsætið var í boði og við tökum það ekki. Við virðumst ekki tilbúnir í það.

„Það var lítið að frétta. Við bárum allt of mikla virðingu fyrir þeim og náðum aldrei að byggja upp eitt né neitt. Eðlilega voru þetta sanngjörn úrslit en það er fúlt að hafa ekki náð að skora á þá og gera úr þessu leik,“ sagði Ágúst.

Mörkin úr fyrri hálfleik: Andri Rafn Yeoman kemur Blikum í 0-3:
vísir/hanna
vísir/hanna



Fleiri fréttir

Sjá meira


×