Körfubolti

Nýliðar Skallagríms semja við hinn 36 ára gamla Darrell Flake

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darrell Flake.
Darrell Flake. Vísir/Anton
Báðir nýliðarnir í Domino´s deild karla í körfubolta munu sækja sér reynslu til Tindastóls fyrir komandi körfuboltatímabil.

Þórsarar frá Akureyri sömdu á dögunum við hinn fertuga Darrel Keith Lewis en Skallagrímur hefur gengið frá eins árs samningi við hinn 36 ára gamla Darrell Flake.

Skallagrímur segir frá þessum nýja samningi við Darrel Flake á fésbókarsíðu sinni í kvöld.

Darrel Keith Lewis og Darrell Flake hjálpuðu Tindastólsliðinu að komast alla leið í lokaúrslitin um Íslandsmeistaratitilinn þegar Stólarnir voru nýliðar í deildinni tímabilið 2014-15.

Darrell Flake er með íslenskt vegabréf en hann hefur ekki misst úr mörgum tímabilum á Íslandi frá því að kom fyrst til KR veturinn 2002-03.

Flake átti erfitt tímabil í fyrra þar sem hann missti mikið úr vegna meiðsla og þar á meðal af allri úrslitakeppninni. Flake var með 9,2 stig og 4,5 fráköst að meðaltali á 17,0 mínútum. Hann kom síðast inn á gólfið á tímabilinu þegar Tindastóll mætti Hetti 7. febrúar.

Þetta er í þriðja sinn sem Darrell Flake gengur til liðs við Skallagrím því hann spilaði með liðinu fyrst 2006-08 og svo aftur 2010-12.

Darrell Flake lék fyrri tvö árin með Skallagrím í úrvalsdeildinni en seinni tvö árin voru í B-deildinni. Flake var með 18,6 stig og 11,8 fráköst að meðaltali með Skallagrími í 1. deildinni 2011-12.

„Við væntum mikils af reynslu og leiðtogahæfni Flake í ungu og efnilegu liði Skallagríms," segir í frétt Skallagrímsmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×