Fótbolti

Lars við fólkið á Arnarhóli: Finnst ég vera kominn heim | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/vilhelm/hanna
Nú stendur yfir mikil móttökuathöfn á Arnarhóli fyrir íslenska fótboltalandsliðið sem stóð sig svo frábærlega á EM í Frakklandi.

Þjálfararnir Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck fluttu báðir stutta tölu sem má heyra hér að neðan.

„Við erum ákaflega stolt af ykkur og því sem þið hafið gefið okkur og strákunum er alveg magnað. Þetta hefur sýnt okkur hvað við getum verið sterk þegar við stöndum saman og gleðin er við völd. Við erum stoltir af því að vera Íslendingar,“ sagði Heimir sem tekur nú einn við landsliðinu.

„Við erum að kveðja Lars Lagerbäck. Ég veit að hann er feiminn og segist örugglega vera veikur þegar hann byrjar að gráta,“ bætti Heimir við en þeir hafa starfað saman frá árinu 2012.

„Hjónabönd á Íslandi endast ekki alltaf svona lengi. Við eigum eftir að sakna hans og hann verður áfram í hjarta okkar,“ sagði Eyjamaðurinn áður en hann gaf Lars orðið.

„Þetta er liðsframmistaða,“ sagði Svíinn sem hrósaði starfsfólki landsliðsins og bað það um að stíga fram.

„Þetta er jafnvel tilkomumeira en 80.000 manns í París. Þið eruð algjörlega stórkostleg,“ sagði Lars sem ítrekaði hversu vel honum liði alltaf þegar hann kæmi til Íslands.

„Mér finnst ég vera kominn heim,“ sagði Lars og vísaði þar til lagsins vinsæla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×