Erlent

Í beinni útsendingu á Facebook eftir að hafa verið skotinn af lögreglu

Samúel Karl Ólason skrifar

Þeldökkur maður var skotinn til bana af lögreglu í Falcon Heigts í Minnesota í Bandaríkjunum í gær. Maðurinn hafði verið stöðvaður þar sem hann var í bíl með kærustu sinni og fjögurra ára dóttur hennar. Hann er sagður hafa tilkynnt lögregluþjóninum að hann væri með vopn sem hann væri með leyfi fyrir áður en hann var skotinn.

Seinna meir má heyra að lögregluþjónninn blótar mikið og virðist hann í verulegu uppnámi. Hann biður konuna um að vera með hendurnar sýnilegar, en mótmælir myndatökunni ekki. Philando Castile var skotinn fjórum sinnum inn um glugga bílsins.

Kærasta Castile fór í beina útsendingu á Facebook um leið og hann varð fyrir skotum, en myndbandið af atvikinu hefur vakið mikla reiði. Þetta er í annað sinn á tveimur dögum sem að þeldökkur maður er skotinn til bana af lögreglu.

Meðfylgjandi myndband CNN, þar sem búið er að skeita saman myndbönd af vattvangi, er ekki fyrir viðkvæma og gæti vakið óhug.

Samkvæmt CBS Minnesota var Castile úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi. Kærastan Diamond Reynolds, segir í mynbandinu, að þau hafi verið stöðvðuð vegna þess að ljós á bílnum hafi ekki virkað. Lögregluþjónninn hafi beðið Castile um öku- og skráningarskírteini.

Hún segir að á meðan hann hafi teygt sig eftir veski sínu hafi hann tilkynnt lögreglunni að hann væri vopnaður og hann hefði leyfi fyrir byssunni. Þá hafi han verið skotinn fjórum sinnum.

Á einum tímapuntki öskrar lögregluþjónn að hann hefði sagt Castile að teygja sig ekki í vopnið og að sýna hendurnar. Reynolds sagði þá við hann að hann hefði skipað Castile að sækja skírteinið sitt.

Í gær fór myndband af því þegar lögreglan í Baton Rouge skaut Alton Sterling til bana. Hundruð mótmæltu þar í nótt, aðra nóttina í röð. 

Myndband af atvikinu þykir sýna að lögreglan hafi ekki skotið manninn í sjálfsvörn því á myndbandinu sést hvernig annar lögreglumaðurinn heldur manninum niðri á meðan hinn skýtur hann nokkrum sinnum í brjóstkassann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×