Innlent

"Konur þurfa enga kynjakvóta sem listamenn“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ingólfur stýrði brekkusöngnum í fyrra en hér sést hann munda gítarinn á sviðinu í Herjólfsdal.
Ingólfur stýrði brekkusöngnum í fyrra en hér sést hann munda gítarinn á sviðinu í Herjólfsdal. vísir/stöð 2
„Þessi punktur að það vanti fleiri konur á þjóðhátíð bara því það vanti konur finnst mér bara til þess gerður að gera minna úr konum sem listamönnum,“ skrifar Ingólfur Þórarinsson, oft kenndur við Veðurguðina, á Facebook-síðu sína.

Með skrifum sínum deilir Ingólfur frétt RÚV um að fáar konur séu meðal flytjenda á hátíðinni í ár. Í fréttinni er rakið hvernig hallað hefur á kvenflytjendur í gegnum tíðina.

„Konur þurfa enga kynjakvóta sem listamenn. Þær sem koma með góð lög verða bókaðar víða eins og aðrir listamenn,“ segir hann og bætir við að ekki muni hann nöldra ef sjötíu prósent af vinsælustu listameönnunum eftir þrjú ár verða konur.

Líkt og alkunna er þá er Ingólfur sjálfur tónlistamaður og hefur komið fram í Eyjum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Undanfarin ár hefur hann meira að segja stýrt brekkusöngnum á lokadegi hátíðarinnar.

„Í gegnum söguna hafa fleiri strákar verið i hljómsveitum hér á landi. Þess vegna eru væntanlega oftar strákar að spila á svona hátíðum. Það er flott að það eru fleiri konur að gera músík í dag og eflaust munu fleiri slá í gegn með tímanum en þær þurfa enga aðstoð bara þvi þær eru konur. Það finnst mér gera minna úr þeim sem listamönnum,“ skrifar hann.

Að endingu bætir hann við að fólk ætti frekar að koma með gagnrýni hvaða tónlistarkonur vantar, á grundvelli þess sem þær hafa fram að færa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×