Skoðun
Jakob Þorsteinsson, forstöðumaður Sundlaugar Kópavogs.

Af „mönnum“ og misskilningi í Sundlaug Kópavogs

Jakob Þorsteinsson skrifar

Tilefni þessarar greinar er grein sem Lárus Jón Guðmundsson skrifar og birtist Fréttablaðinu 16. júní sl., undir yfirskriftinni „Er kúkur í Sundlaug Kópavogs“. Nokkurs misskilnings gætir í greininni sem rétt að leiðrétta.

Í hátt í tvo áratugi hafði fyrirtækið GYM heilsa rekið líkamsræktarstöðvar í sundlaugunum í Kópavogi. Þeirri starfsemi lauk 31. maí síðastliðinn og mun nýtt fyrirtæki hefja rekstur í haust í þess stað. Frá upphafi hefur sala á kortum í GYM heilsu farið í gegnum afgreiðslu sundlauganna í Kópavogi, þar sem starfsmenn lauganna hafa selt kortin fyrir hönd GYM heilsu og tekið á móti greiðslu fyrir hönd þess fyrirtækis og kann að vera að það hafi valdið því að sumir telji að sundlaugarnar í Kópavogi og GYM heilsa séu eitt. En svo er ekki. GYM heilsa er einkafyrirtæki sem hefur rekið líkamsrækt fyrir sína gesti, borgað leigu til lauganna og keypt aðgang að laugunum fyrir sína gesti. Þeir sem hafa keypt kort af GYM heilsu eru því viðskiptavinir þeirra og geta því ekki gert kröfu á aðra en það fyrirtæki varðandi efndir.

Á heimasíðu GYM heilsu, gymheilsa.is, sést að GYM heilsa býður viðskiptavinum sínum sem enn eiga kort sem eru í gildi að æfa í Sporthúsinu. Ef það úrræði hentar ekki og viðskiptavinir þeirra vilja fá kortin sín uppfyllt á annan hátt geta þeir farið á skrifstofu GYM heilsu á Suðurlandsbraut 48 í Reykjavík og fengið úrlausn sinna mála. Vonandi geta allir sætt sig við þau málalok.

Að lokum vil ég þakka Lárusi Jóni fyrir hlý orð í garð Sundlaugar Kópavogs og sérstaklega þá í garð starfsmanna. Þá skemmdi ekki fyrir hversu oft hann nefndi Sundlaug Kópavogs með nafni í grein sinni þó svo að betra hefði verið að það hefði verið í tengslum við eitthvað annað en kemur fram í fyrirsögn greinar hans.

Lárus Jón segir að það kunni að vera gott að búa í Kópvogi. Ef svo er, þá er enn betra að búa þar vegna Sundlaugar Kópavogs. Og að lokum, í Sundlaug Kópavogs eru bara menn, engir mannar.


Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.