Skoðun
a

Ný tegund vinnusambanda

Herdís Pála skrifar

Margt hefur verið rætt og ritað um nýjar hugmyndir yngra fólks á vinnumarkaði. Það sé ekki eins tilbúið til að vinna langan vinnudag, eða ekki eins upptekið af starfsframa. Það vilji ráða sér meira sjálft og gera hlutina meira eftir eigin höfði.

Nú eru hins vegar að koma fram merki þess að það sé ekki bara yngra fólkið á vinnumarkaðnum sem er að þróa nýjar hugmyndir um vinnusambönd því hugmyndir reyndara fólks á vinnumarkaðnum eru líka að breytast.

Gamla hugsunin um að allir með metnað vilji alltaf vera að klifra upp metorðastigann er úrelt.
Reyndar er margt sem bendir til þess að mjög hæfir og reyndir einstaklingar séu jafn mikið að hugsa um hvernig sé best að klifra niður hinn gamla og svokallaða metorðastiga.
Þetta eru einstaklingar sem eru búnir að sanna sig og skapa sitt orðspor. Einstaklingar sem eru metnaðarfullir, vilja þróast, fá krefjandi verkefni og nýta reynslu sína sem best án þess að vera að hugsa lengur um hefðbundinn starfsframa, vera ofurseldir starfi sínu eða einum vinnuveitanda.

Hugmyndir um að vera í hlutastarfi hjá fleiri en einum vinnuveitanda, til að geta varið sem mestum tíma í verkefnum sem falla vel að sérhæfingu viðkomandi, eru að heyrast í auknum mæli.

Hugmyndir um að vinna í gegnum fjartengingu; heiman frá sér, frá golfvallarhóteli eða ströndinni er eitthvað sem margir geta hugsað sér, enda býður nútímatækni upp á það.
Á ensku er jafnvel talað um „The Freelance Economy“.

Hlutastörf og fjarvinna er eitthvað sem getur líka verið til hagsbóta fyrir vinnuveitendur, ef vel er að málum staðið, hvað varðar skipulag, samninga, hugarfar o.fl.

Þetta er því klárlega eitthvað sem vinnuveitendur og stjórnendur þurfa að skoða vel, ætli þeir sér að vera samkeppnishæfir á vinnumarkaði framtíðarinnar.

Störf sem við fyrstu sýn þættu ólíkleg til að henta í fjarvinnu geta mörg hver hentað mjög vel ef umgjörðin, skipulagið og mönnunin er góð, kannski erfiðast með starfsmenn í mötuneyti!Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.