Fótbolti

KSÍ fær 481 milljón fyrir árangurinn á EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnór Ingvi Traustason fagnar eftir sigurinn á Austurríki í gær.
Arnór Ingvi Traustason fagnar eftir sigurinn á Austurríki í gær. Vísir/Getty
Sigurmark Arnórs Ingva Traustasonar gegn Austurríki í gær er nú þegar orðið að einu merkasta augnabliki íþróttasögu Íslands.

Með markinu sá hann til þess að Ísland ynni sinn fyrsta sigur í lokakeppni A-landsliða karla og tryggði að Ísland mætir Englandi í 16-liða úrslitum EM í Frakklandi í Nice á mánudag.

Markið var einnig dýrmætt í aurum talið. Hvert lið á EM fær eina milljón evra fyrir sigur í riðlakeppninni en hálfa milljón fyrir jafntefli.

Þau lið sem tryggðu sér þátttökurétt í 16-liða úrslitum keppninnar fá 1,5 milljón evra þar að auki en það þýðir að Ísland fékk samtals 3,5 milljónir evra fyrir árangurinn í F-riðli, jafnvirði 481 milljóna króna.

Leikmenn fá hluta af þeirri upphæð sem bónusgreiðslu. Samkvæmt heimildum Vísis fengu leikmenn Íslands tvo þriðjuhluta af þeirri upphæð sem Ísland fær fyrir árangur sinn í riðlinum og hafa leikmenn samkvæmt því tryggt minnst um átta milljónir króna hver.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×