Skoðun
Eydís Blöndal

Andri Snær – forseti með erindi

Eydís Blöndal skrifar

Á laugardaginn eru forsetakosningar. Ég á erfitt með að átta mig á hlutverki forsetans þar sem ég man bara eftir einum forseta. Ég hef enga tilfinningu fyrir því hvort Ólafur hafi verið góður eða slæmur forseti, fyrir mér er forseti Íslands eins og Ólafur er. Sem er eiginlega bara sorglegt. En seinustu mánuði hef ég verið að spyrja mig hvernig forseta ég myndi vilja fá, fengi ég að velja.

Fólk talar mikið um að forsetinn eigi að vera sameiningartákn og standa fyrir alla Íslendinga. Fyrir mér er þetta fáránleg krafa. Hvernig á einn einstaklingur að standa fyrir bæði náttúruvernd og náttúrueyðileggingu? Hvernig á einn einstaklingur að sameina fólk sem vill taka á móti flóttafólki og fólk sem vill það ekki? Og svo framvegis. Það eina sem þessi hugmyndafræði skilar okkur er einstaklingur sem talar ekki fyrir neinu og hefur engar opinberar skoðanir, tekur skóflustungur og flytur ávarp um ekki neitt á áramótunum. Og þá sé ég engan tilgang með embættinu.

Hvað á forseti að gera?
Forseti Íslands getur talað um þá hluti sem skipta máli fyrir framtíðina. Hann getur talað fyrir umhverfismálum (í alvöru, ef við gerum ekkert í þeim málum getum við allt eins sleppt allri annarri umræðu því við munum þurrkast út með næstu kynslóðum), hann getur talað fyrir nýsköpun (hvernig við getum lifað með menguðu vatni, hækkandi sjávarmáli, súrum sjó og fleiri vandamálum sem við höfum ekki enn gert okkur grein fyrir) og hann getur talað fyrir jöfnuði og sanngjörnu samfélagi. Það er það sem ég vil sjá forseta gera, og það merkilega er að ég get valið mér þennan forseta!

Eftir að hafa lesið LoveStar og Draumalandið þegar ég var 15 ára, og aftur og aftur seinustu árin, veit ég að Andri Snær mun tala fyrir þessum málefnum sem forseti. Hann hefur lagt mikla vinnu í að ræða við fólkið í landinu, og seinna fólk út um allan heim, um lýðræði, samfélagið, ástina, markaðsöfl, nýsköpun, náttúruvernd og möguleika. Andri Snær sér framtíðina og les í fortíðina af næmi, forvitni og virðingu. Ef þið trúið mér ekki skulið þið lesa bækurnar hans.

Það er nákvæmlega þess vegna sem ég skoraði á Andra að bjóða sig fram, og það er þess vegna sem ég get ekki beðið eftir því að kjósa hann sem forseta. Loksins!Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira