Fótbolti

Aron Einar: Að leiða þetta lið út er ólýsanlegt

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron Einar í baráttunni við Harry Kane.
Aron Einar í baráttunni við Harry Kane. vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði Íslands, segir að það hafi ekki munað miklu að hann hefði farið af velli í hálfleik vegna meiðsla þegar Ísland sigraði England með tveimur mörkum gegn einu.

„Ég var alveg farinn. Ég kom inn í hálfleik og það var á mottunni hvort ég ætti að halda áfram eða ekki," sagði Aron Einar Gunnarsson í samtali við Pétur Marteinsson hjá Símanum í leikslok.

„Þetta gerir maður á adrenalíni og að leiða þetta lið út er ólýsanlegt. Ég trúi ekki hvað er í gangi, en þetta er samt svo raunverulegt."

„Ég held að við megum vera virkilega stoltir og ég held að Íslendingar séu stoltir af strákunum."

Íslenska liðið hélt boltanum vel í leiknum og annað markið kom meðal annars eftir glæsilegt spil. Aron segir að þeir hafi talað um að þeir gætu ekki varist allan leikinn.

„Við vorum búnir að tala um það fyrir leikinn að við gætum ekki varist í 90 mínútur og þeir skoruðu snemma."

„Þeir fengu víti sem var klárlega víti, en svo náum við fínu spili og seinna markið var glæsilegt."

„Mér fannst við vera rólegir og yfirvegaðir og ég held að það spilaði inní að við höfðum engu að tapa, en pressan var öll á Íslandi."

„Um leið og við héldum þeim niðri þá fóru þeir að drífa sig að hlutum sem við erum virkilega sáttir með. Okkur líður vel þegar við erum að verjast og það sást greinilega í dag," sagði Aron að lokum.


Tengdar fréttir

Ragnar: Drullusama hverjir þeir eru

Ragnar Sigurðsson átti frábæran leik í hjarta varnarinnar þegar Ísland sló England úr leik í 16-liða úrslitum á EM 2016 í Nice í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×