Menning

Berglind ráðin nýr framkvæmdastjóri Borgarleikhússins

Birgir Olgeirsson skrifar
Berglind Ólafsdóttir.
Berglind Ólafsdóttir.
Nýlega var staða framkvæmdastjóra Leikfélags Reykjavíkur auglýst og sóttu 56 umsækjendur um. Á meðal umsækjenda voru margir reyndir og kraftmiklir einstaklingar en einn umsækjandi stóð upp úr og var það Berglind Ólafsdóttir.

Berglind er viðskipta- og rekstrarfræðingur að mennt, hún hefur víðtæka reynslu í rekstrar og mannauðsmálum en hún hefur undanfarin 11 ár starfað sem skrifstofustjóri Menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar en þar hafði hún yfirumsjón með fjármálum og rekstri sviðsins.

Síðastliðið haust ákvað Berglind að venda kvæði sínu í kross og sagði upp störfum hjá Reykjavíkurborg þar sem hana langaði að takast á við nýjar áskoranir á öðrum vettvangi. Hún lét formlega af störfum þar í febrúar.

„Ég hef fylgst með rekstri Borgarleikhússins undanfarin ár og það hefur ekki farið fram hjá nokkrum sem það hefur gert að þar starfar öflugt, faglegt og kröftugt starfsfólk. Ég er þakklát og hlakka til að fá að tilheyra þeim starfshópi og taka þátt í áframhaldandi velgengni leikhússins,“ er haft eftir Berglindi í tilkynningu frá Borgarleikhúsinu. Starfsfólk og stjórn

Borgarleikhússins þakkar á sama tíma Þorsteini Ásmundsyni fyrir afar vel unnin störf síðastliðin 13 ár og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×