Veiði

Sjaldan eða aldrei meira um mink en nú

Jakob Bjarnar Grétarsson skrifar
Hundurinn Tyson með í kjafti einn af ótal minkum sem hann hefur drepið um sína daga.
Hundurinn Tyson með í kjafti einn af ótal minkum sem hann hefur drepið um sína daga. Mynd/Birgir Hauksson

Vargveiðimenn brosa af nýjustu fréttum úr fræðaheiminum þess efnis að minkastofninn sé að hruni kominn. Reyndar hefur sjaldan eða aldrei verið meira um hann en nú.

„Þetta er tóm vitleysa. Þvert á móti. Það hefur ekki verið minkaskortur þar sem ég þekki til,“ segir Birgir Hauksson, þaulvanur minkaveiðimaður.

Óvænt tíðindi úr fræðasamfélaginu
Í blaðinu Vesturland, sem Magnús Þór Hafsteinsson ritstýrir, er birtist nýverið frétt þar sem vitnað er í veiðitölur sem benda til þess að minkastofninn sé hruninn. Á síðasta ári veiddust 2.500 minkar á landinu en bent á til samanburðar á um aldamótin hafi veiðst 7.500 dýr árlega.

„Sé gert ráð fyrir að sóknarþungi í stofninn hafi haldist svipaður milli ára á þessu tímabili er ljóst að stofninn hefur látið mjög mikið á sjá. Bágt ástand minkastofnsins nú ætti að gefa færi á að útrýma þessum mikla skaðvald og aðskotadýri úr íslenskri náttúru í eitt skiptið fyrir öll.“

Magnús Þór byggir á grein þeirra Róberts A. Stefánssonar og Menja von Schmalensee líffræðinga á Náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi, sem hafa birt greinina „Vöxtur og hrun minkastofnsins. Uppruni og útbreiðsla minks„ í nýjasta hefti tímaritsins Breiðfirðings.

Er þessu fólki ekki sjálfrátt?
Þessar hugmyndir eru ekki í nokkru samræmi við reynslu vargveiðimanna og á Skotveiðispjallinu á Facebook er spurt hvort þessu fólki sé sjálfrátt? Ástæðan fyrir þessum misvísandi upplýsingum liggur einfaldlega í veiðikerfinu sem skotveiðimenn hafa gagnrýnt lengi; það þýði lítt að horfa þangað til að meta stofnstærð minks.

Birgir glottir við tönn, samkvæmt hans reynslu, sem er mikil, er nóg af minki — og það sýna dæmin. Mynd/Birgir Hauksson

Vísir ræddi við Birgi Hauksson vargveiðimann með meiru, sem hefur fengist við það að eltast við mink allt frá því hann var strákur; í áratugi sem sagt. Hann lýsir ástandinu eins og það horfir við sér.

„Ég skal taka sem dæmi Lundareykjadalshrepp hinn forna sem er nú í Borgarbyggð. Þar voru veiddir við Reyðarvatn eitt yfirleitt um 30 - 40 minkar árlega. Nú er kvóti 15 minkar á ári í öllum dalnum. Ef þú skoðar kort þá er þarna Grímsá með um 70 kílómetra bakkalengd. Tunguá er með um 30 kílómetra bakkalengd, ef ég á að giska. Allt er þetta innan þessa svæðis þar sem í dag er kvóti upp á 15 minka og búið að vera þannig síðan 2008 eða 2009. Auðvelt fyrir þann sem skoðar veiðitölur að áætla að stofninn sé hruninn,“ segir Birgir og glottir.

Ekki í nokkru samræmi við veruleikann
Þannig að, þetta er bara hlægilegt?
„Já, það má segja það. Eitthvað sá ég þarna getið um að það væri minna að éta fyrir hann í Breiðafirði og það væri ástæða fyrir minni mink þar. Ég hef enga trú á öðru en þar sé nóg af mannsa og sprettfiski enn,“ segir Birgir.

Mannsi er marhnútur, fyrir þá sem það ekki vita. Og þetta er það sem minkurinn helst étur í fjörunni, fyrir utan fugl.

„Nóg er af mink, að minnsta kosti þar sem nefið á Tyson fer um,“ segir Birgir og vitnar í sinn öfluga minkaveiðihund sem hefur fleiri minkalífá samviskunni en tölu verður komið á.

Eins og áður sagði hefur Birgir verið að eltast við mink síðan hann var smápatti. Hann segist ekki hafa geta beitt sér af krafti síðustu tíu ár eða svo, eða eftir að hann slasaðist á sjó. En, þeir sem fylgjast með Birgi og Tyson vita að þar eru engir hálfdrættingar á ferð. Birgir segir þetta dæmi með Reiðarvatn og Lundareykjadal segja allt sem segja þarf um þetta. Og þetta er svipað víða um land.

Reykjavík full af minki
En, hver er þín tilfinning gagnvart stofnstærðinni, almennt?

Mér finnst hún svipuð og hún hefur verið undanfarin ár. Að minnsta kosti er hún ekki minni þar sem ég þekki til. Ég hef reyndar ekki verið í Breiðafirði, en þaðan draga þau hjónin Róbert og Menja ályktanir sínar.“

Birgir hefur mest verið við minkaveiðar í Skorradal. Og svo hefur hann veitt fyrir Borgarbyggð einnig og þá eftir kvóta.

Ekki vantar minkinn í íslenska náttúru, svo mikið er víst. Myndir/Birgir Hauksson

„Ég tók til dæmis 15 minka við Norðurá. Það tók fjóra klukkutíma að ná þeim. Þetta var 20. maí. Í fyrravor tók það svipaðan tíma.“

Og Birgir bendir á að Reykjavík sé full af mink. Svo hafi að minnsta kosti verið í fyrra.

„Minkaveiði er svo að segja aflögð á öllu Reykjanesi í dag. Þaðan komu stórar veiðitölur í gamla daga. Þverá er eini staðurinn í Borgarbyggð þar sem minkur hefur verið veiddur af viti síðan kvóti var settur á í Borgarbyggð. Þar hefur veiðifélagið, eða leigutakar, borgað það sem veiðst hefur umfram þessa 15 sem Borgarbyggð borgar fyrir árlega. Kallinn sem sér um það hefur stundað það mjög samviskusamlega og til dæmis farið um alla Tvídægru þar sem Kjarrá á upptök sín. Þar er víst lítið af mink og þar er veiði um að kenna, eða þakka, ekki einhverju náttúrulegu stofnhruni.“

Birgir segir svo frá að Veiðifélag Andakílsár hafi farið í það sama fyrir ári og þar voru drepnir um 25 til 30 minkar umfram kvóta Borgarbyggðar, nú tvö ár í röð.

„Og það er ekki löng spræna. Þetta hafði þau áhrif að aldrei var kvartað undan mink í fyrrasumar af veiðimönnum.“

Minkar að baða sig í bestu veiðistöðunum
Að sögn Birgis var áður látlaust kvartað og grenjað undan því að minkar voru að svamla um á bestu veiðistöðunum. Og meðan svo er, veiðist ekki mikið.

Birgir segir misjafnt hvað borgað er fyrir skottið, algengt sé þetta sjö til átta þúsund en það liggi algerlega fyrir að þeir sem þetta stundi komi alltaf út í mínus. Sums staðar er þetta bara þrjú þúsund krónur sem endurgreiðsluhlutfall ríkisins miðast við.

En, verður minknum einhvern tíma útrýmt úr íslenskri náttúru?

„Það væri alveg hægt að útrýma honum, held ég, ef engir slyppu af minkabúunum á meðan. Það yrði samt mikil vinna. En, með skipulagðri veiði og þá að veitt sé alls staðar, væri hægt að halda honum í algjöru lágmarki.“

Þessi frétt birtist einnig á veiðivefnum Gripdeild.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.