Innlent

Fengu styrk að verðmæti 1,1 milljarður fyrir verkefnið VIRUS-X

Svavar Hávarðsson skrifar
Íslensk hverasvæði eru sérstaklega til skoðunar í verkefninu.
Íslensk hverasvæði eru sérstaklega til skoðunar í verkefninu. vísir/gva

Íslenska líftæknifyrirtækið Prokazyme, Matís, og 13 erlendir háskólar, stofnanir og fyrirtæki hafa hlotið styrk að verðmæti átta milljónir evra [1,1 milljarður íslenskra króna] úr sjóði Horizon 2020, 8. rannsóknaáætlun Evrópu, vegna rannsóknaverkefnisins VIRUS-X.

Verkefnið miðar að rannsókn á erfðamengjum og genaafurðum í veirum sem finnast í náttúrulegum vistkerfum með áherslu á vistkerfi hitakærra örvera í íslenskum hverum, eins og kemur fram í frétt frá Matís.

Þar segir líka að samstarfsaðilarnir skipti með sér fjárframlaginu samkvæmt verk- og kostnaðaráætlun.

Verkefnið er til fjögurra ára og því stýrir Arnþór Ævarsson, framkvæmdastjóri Prokazyme. Matís er stærsti framkvæmdaaðilinn af 15 rannsóknastofnunum sem taka þátt.

Grundvallarmarkmið VIRUS-X er að einangra erfðaefni hitakærra veira beint úr náttúrulegum sýnum. Það er gert til að raðgreina erfðamengi þeirra, bera kennsl á áhugaverð gen og framleiða viðkomandi gena­afurðir, fyrst og fremst ensím, til frekari skoðunar og hagnýtingar.

Einkum er sóst eftir ensímum sem eru virk á erfðaefni og aðrar kjarnsýrur svo sem DNA og RNA og nýtast sem verkfæri þeirra aðila sem eru að vinna við raðgreiningu og annarri vinnu með erfðaefni á þúsundum rannsóknastofa um allan heim. Í VIRUS-X verkefninu verður einnig leitast við að skoða samspil örvera og veira í náttúrunni og fá betri skilning á viðkomandi vistkerfum svo sem á jarðhitasvæðum á landgrunni Noregs og í hverum á völdum jarðhitasvæðum á Íslandi. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. júníAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.