Viðskipti innlent

Er velkomið að reyna

skjóðan skrifar
Nú hefur Alþingi samþykkt svokallað haftafrumvarp fjármálaráðherra. Þetta greiðir götu fyrir gjaldeyrisútboð Seðlabanka Íslands til að hleypa aflandskrónueigendum úr landi á verulegum afslætti frá gildandi gengi krónunnar.

Menn getur greint á um það hvernig til hefur tekist með uppgjör við kröfuhafa gömlu bankanna en víst er að mjög mikilvægt er að losna við þá snjóhengju aflandskróna, sem útboði Seðlabankans er ætlað að hreinsa út úr kerfinu. Annars verður ógerningur að koma einhverju skikki á gjaldeyrisviðskipti hér á landi án þess að skapa stórhættu fyrir fjármálakerfið og samfélagið allt.

Ber þá svo við að fulltrúar aflands­krónueigenda halda því fram að með samþykkt laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, eins og haftalögin heita réttu nafni, hafi Alþingi brotið á eignarrétti spákaupmannanna sem eiga aflands­krónurnar. Þetta er fráleitt.

Þeir ríflega 300 milljarðar í aflandskrónum, sem nú á að hleypa úr landi með afföllum, eru beinlínis ástæða þess að gjaldeyrishöft hafa þurft að vera svo ströng sem raun ber vitni. Því er mikilvægt að losa þá út úr kerfinu án þess að sú aðgerð sjálf setji kerfið á hliðina. Þarna liggja brýnir almannahagsmunir.

Þá verður líka að horfa til þess að aflandskrónueigendur hafa notið í ríkulegum mæli ofurvaxtastefnu Seðlabankans allt frá hruni. Vextina hafa þeir mátt taka og skipta í erlendan gjaldeyri og flytja úr landi þó að höfuðstóllinn hafi verið bundinn. Þetta hefur hentað þeim ágætlega og eru vandfundnar fjárfestingar sem gefa betur af sér en einmitt þessar aflandskrónur sem valda okkur Íslendingum svo miklum vanda.

Nú er aflandskrónueigendum settur stóllinn fyrir dyrnar. Þeir fá ekki lengur að liggja með peningana sína á hæstu vöxtum í heimi hér á Íslandi.

Vilji þeir áfram geyma peningana sína hér verða þeir fluttir á vaxtalausa reikninga en þeim gefst einnig kostur á að taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans og kaupa evrur á genginu 220, eða þar um bil, sem þýðir ríflega þriðjungs afföll þessara eigna. Auðvitað vilja þeir frekar vera með peningana á hávaxtareikningum en það stendur ekki lengur til boða.

Skjóðan skrifar í Markaðinn í Fréttablaðinu. Hún er frekju- og leiðindaskjóða, sem lætur ekkert mannlegt sér óviðkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×