Innlent

Grunur er um mansal hjá Félagi heyrnarlausra

Snærós Sindradóttir skrifar
Daði Hreinsson, framkvæmdastjóri Félags heyrnarlausra, vísar ásökununum á bug og segir að sögunni sé komið til lögreglunnar af fólki sem sé í valdabaráttu innan félagsins.
Daði Hreinsson, framkvæmdastjóri Félags heyrnarlausra, vísar ásökununum á bug og segir að sögunni sé komið til lögreglunnar af fólki sem sé í valdabaráttu innan félagsins. Vísir/GVA

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar vinnumansalsmál innan Félags heyrnarlausra. Rússnesk kona sem kom hingað til starfa við að selja happdrættismiða dvelur nú í Kvennaathvarfinu á meðan málið er til rannsóknar.

„Ég get í raun bara staðfest að við erum með einn einstakling sem við erum með grun um að sé þolandi mansals í Kvennaathvarfi. En ég get ekkert sagt með tengingar við félag, ég get ekki tjáð mig um það núna,“ segir Snorri Birgisson, yfirmaður mansalsteymis lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins þurfti konan sem um ræðir að borga 1000 dollara við komuna til landsins án þess að hafa hér atvinnuleyfi. Það hefur hún gert í tvígang. Hún hafi fengið um 20 þúsund krónur í laun á síðustu tveimur mánuðum. Þá hafi hún verið rukkuð fyrir skutl á vegum vinnuveitanda síns á þau svæði þar sem henni var gert að vinna, allt að 3000 krónur í hvert skipti.

Starfsmaður Félags heyrnarlausra liggur undir grun vegna mansals í tengslum við happdrættissölu félagsins. vísir/Vilhelm

Daði Hreinsson, framkvæmdastjóri Félags heyrnarlausra, vísar ásökununum á bug og segir að sögunni sé komið til lögreglunnar af fólki sem sé í valdabaráttu innan félagsins. Aðalfundur félagsins er í dag.

„Fyrir hvern aðalfund hefur verið allskonar taktík í gangi meðal lítils hóps. Það virðist vera þannig að þeim sárnar mjög að félaginu hefur gengið afskaplega vel.“

Daði segir ásakanirnar snúa að starfsmanni félagsins sem sjái um fjáröflun þess.  „Þetta er fólk sem kemur erlendis frá og hefur verið að hjálpa félaginu að selja vegna þess að við fáum enga íslenska heyrnarlausa til að selja happdrættin í hús.“

Starfsmaðurinn var sendur í launalaust leyfi þegar málið kom upp á sunnudag.

Eiga að fá 25% af sölunni
Samkomulag Félags heyrnarlausra við fólkið er að þau fái 25% af sölu happdrættismiðanna í laun. Konan sem um ræðir í þessu máli fékk hinsvegar aðeins 15% af andvirði sölunnar. Daði segir að um samkomulag hafi verið á milli hennar og starfsmannsins gegn því að hún fengi fría gistingu á heimili hans.

„Hún hefur komið hingað þrisvar eða fjórum sinnum áður, algjörlega sjálfviljug. Við höfum aðstoðað við að borga hluta í flugmiðanum því hún hefur reynst dugleg stelpan. Þannig að við vísum alfarið á bug það að þetta sé mansal.“

Daði segir að það sé alrangt að 1000 dollarar hafi verið teknir af konunni heldur hafi maðurinn tryggt þá vegna reglna hjá rússneska sendiráðinu. Starfsmaður rússneska sendiráðsins sem Fréttablaðið ræddi við segir að engar slíkar reglur séu við lýði.

Daði segir að fólkið sem starfaði við happdrættissöluna hafi látið sig hverfa og sé óínáanlegt nú.

„Þau hafa greinilega farið heim til einhverra þeirra sem eru í þessu plotti, því miður. Þannig að það sem okkur vantar alfarið í þetta eru báðar hliðar á málinu.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. maí. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.