Veiði

Dræmari laxveiði í kortunum en í fyrra

Jakob Bjarnar Grétarsson skrifar
Vísir/ANTON

Því miður mun laxveiðin í sumar ekki verða eins góð og hún var í fyrra. Þetta segir Arthur Bogason, fyrrverandi formaður Landssambands smábátaeigenda, og því miður verður þetta að teljast líklegt. Sjálfum þykir Arthur þetta leitt en hann veit hvað hann syngur.

Haft á réttu að standa undanfarin undanfarin átta ár
„Undanfarin 8 ár hef ég spáð fyrir um laxveiðina út frá aflabrögðum grásleppukarla. Hvernig í ósköpunum sem á því stendur hef ég í öll skiptin álpast á að hafa rétt fyrir mér. Í eitt skiptið náði hrokinn tökum á mér og ég spáði 30% aukningu milli ára. Raunin varð 31%,“ segir Arthur sem tilkynnir um þetta á Facebook-síðu sinni.

Arthur veit hvað hann syngur, hann var lengi formaður LS, farsæll í starfi en sneri aftur á sjóinn eftir 28 ára og sinnir ritstörfum, eins og fram kom í ágætu viðtali við hann í Fréttablaðinu 2013.

Hann útskýrir að svo vilji til að grásleppu- og laxaseiði deila sömu búsvæðum í hafinu. Hefur þetta til dæmis komið í ljós í makrílrannsóknum Norðmanna, þar sem þeir draga flottroll sem er með höfuðlínuna á yfirborði.

„Hrognkelsa- og laxaseiði eru að mestu í fimm efstu metrum sjávar og fæðan því væntanlega sú sama. Mér finnst því rökrétt að álykta að sé afkoma hrognkelsa góð, þá sé líklegt að sama eigi við um laxinn.“

Arthur Bogason, fyrrverandi formaður Landssambands smábátaeigenda. Vísir/GVA

Ótal þættir sem spila inn í
Arthur segist ekki hafa fundið aðferð til að slá þessum upplýsingum sem hann hefur aflað sér í upphafi grásleppuvertíðar inn í reiknilíkan, svo sem Excel-skjal. En þar spila ýmsir þættir inn í; veðurfar, afli per net eða trossu á ýmsum svæðum, fjöldi manna á veiðum, fjöldi leyfilegra veiðidaga, markaðsaðstæður (sem hafa mikil áhrif á fjölda þátttakenda) og nokkur önnur atriði sem mjög flókið er að „staðla“.

Arthur nefnir sem dæmi í því sambandi að reglugerðameistarar sjávarútvegsráðuneytisins og Fiskistofu eru hreint ekki hugmyndasnauðir þegar kemur að því að ákvarða fjölda neta, lengd þeirra, dýpt og svo framvegis.

„Fyrir þetta getuleysi mitt til að færa hlutina inn í staðlað reiknilíkan hef ég fengið réttmætar ákúrur frá stærðfræðiséníum sem gert hafa grín að tilburðum mínum til að spá fyrir um laxveiðina. Fyrir þetta er ég afskaplega þakklátur, ekki síst vegna þess að þá get ég treyst því að þeir viti betur.“

Grásleppuveiði nær vart máli
Og þá að fréttunum. Grásleppuveiðin 2016 hefur verið með ólíkindum, að sögn Arthurs.

„Ég hef nokkur dæmi um veiði sem varla eiga sér hliðstæðu. Lýsingar sem ég hef eftir gömlum vinum mínum, sem sumir hverjir eru farnir að leggja annars staðar í tilverunni, ná vart máli. Grásleppan er að auki væn og magn rauðmaga meira en menn hafa séð til fjölda ára. Þetta á þó ekki við alls staðar, t.d. við N-Austurhornið.

Á síðasta ári var mikil grásleppuveiði og þá sagði ég orðrétt, að ef einhvern tíma hefði verið auðvelt að spá blikkfullum laxveiðiám, þá væri það fyrir árið 2015. Það gekk eftir.“

En, nú er Arthur ekki eins viss:

„Veðurfarið í ár var mjög ólíkt því sem var á síðasta ári. Menn drógu í haugabrælu 2015 og fengu samt mokafla. Engir vita betur en grásleppukarlar að hrognkelsið hrynur því meira úr netunum sem veðrið er verra. Á hinn bóginn eru menn að fá ágætis afla, t.d. hér í Faxaflóa, sem ég er að skrifa þetta.“

Svona verður laxveiðin
Arthur segir að það hljóti að fara að koma að því að hann hafi rangt fyrir sér eftir átta ár þar sem spár hans hafa gengið eftir:

„Eiginlega væri það bara léttir, því ég er efasemdamaður að upplagi og á þeirri skoðun að ekkert sé algerlega rétt og ekkert algerlega rangt,“ segir Arthúr og bendir sjálfur á að í þeirri setningu felist dásamleg þverstæða. En, þá að því hvernig þetta verður Sumarið 2016:

Laxveiðin verður ágæt. Hún mun engu að síður dragast saman frá síðasta ári um 20 – 25%. Meðalþyngd verður hærri en á síðasta ári og smálaxinn verður vel haldinn. Margir munu upplifa drauminn um 20 pundarann.“

Arthur vonar að hann hafi rangt fyrir sér og að vertíðin fram undan verði sú besta nokkru sinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.