Fastir pennar

Vextir eru háir á Íslandi af því að peningamálastefnan er of slök

Lars Christensen skrifar
Nei, ég gerði ekki mistök í fyrirsögninni. Ég held að ástæðan fyrir því að íslenskir vextir eru svo hlutfallslega háir sé að peningamálastefnan á Íslandi sé of lausbeisluð. Ég skal útskýra þetta.

Oft hugsar fólk – og því miður flestir seðlabankastjórar líka – um peningamálastefnu með hliðsjón af nafnvöxtum. Réttara væri hins vegar að hugsa um peningamálastefnu út frá framboði og eftirspurn eftir peningum, eða öllu heldur væntingum um peningaframboð og -eftirspurn í framtíðinni.

Í raun stjórnar Seðlabankinn ekki stýrivöxtunum. Heldur endurspegla stýrivextirnir væntingar um hagvöxt og verðbólgu. Þannig að ef við höfum háar verðbólguvæntingar fáum við háa stýrivexti.

Seðlabankinn á við trúverðugleikavanda að stríða

Opinberlega stefnir Seðlabankinn að 2,5% verðbólgu. En eigin könnun Seðlabankans á væntingum aðila á skuldabréfamarkaði, sem var birt í síðustu viku, sýndi að ekki er búist við að Seðlabankinn standi við 2,5%. Aðilar á skuldabréfamarkaði búast við því að verðbólgan verði 3,5% að meðaltali næstu tíu árin. Þetta er sláandi andstæða við aðra hluta Evrópu þar sem verðbólguvæntingar eru vel undir 2%.

Það eru ýmsar ástæður fyrir trúverðugleikavanda Seðlabankans en í mínum huga endurspeglar þetta vandamál fyrst og fremst það sem hagfræðingar kalla vandamál vegna ósamkvæmni í tíma, sem er nátengt því hvernig íslenski vinnumarkaðurinn virkar.

Í meginatriðum þýðir ósamkvæmni í tíma að það sé ósamkvæmni á milli þess sem Seðlabankinn segir í dag að hann muni gera og þess hvaða peningamálastefna verði „hagkvæmust“ á næsta ári. Ef Seðlabankinn getur sannfært aðila vinnumarkaðarins um að samþykkja litlar launahækkanir – af því að Seðlabankinn lofar lágri verðbólgu – þá hefur Seðlabankinn, þegar samið hefur verið um litlar launahækkanir, hvata til að slaka á peningamálastefnunni til að draga úr atvinnuleysi.

Aðilar vinnumarkaðarins gera sér auðvitað grein fyrir þessu og taka það með í reikninginn þegar þeir gera kjarasamninga. Þetta sést býsna vel í nýlegum kjarasamningum bæði í einkageiranum og þeim opinbera á Íslandi. Þar sem allir búast við meiri verðbólgu í framtíðinni en Seðlabankinn stefnir að er ekki nema eðlilegt að bæði verkalýðsfélögin og atvinnurekendur samþykki „óábyrga“ kjarasamninga. Þeir vænta þess jú að Seðlabankinn blási út hagkerfið til að lækka kaupmáttinn.

Ekki áfellast Seðlabankann fyrir háa stýrivexti

Það er því augljóst að Seðlabankinn á við alvarlegan trúverðugleikavanda að stríða og þess vegna eru verðbólguvæntingar of háar, sem er aðalástæðan fyrir því að stýrivextir á Íslandi eru háir. Svo ef þið viljið sjá lægri stýrivexti ættuð þið ekki að áfellast Seðlabankann. Þið ættuð að spyrja ykkur hvers vegna Seðlabankinn á við trúverðugleikavanda að glíma.

Til að takast á við þennan trúverðug­leikavanda held ég að við þurfum að styrkja sjálfstæði Seðlabankans (kannski líka að breyta markmiðum hans), gera aðila vinnumarkaðarins ekki bara ábyrga fyrir launahækkunum heldur þurfi þeir einnig að tryggja aukna atvinnu, og sennilega þyrfti að bæta húsnæðislánakerfið líka.






×