Lífið

Dreymdi alltaf um að verða sterkur

Vera Einarsdóttir skrifar
Símon óraði ekki fyrir að hann ætti eftir að standa á verðlaunapalli á kraftlyftingamóti fyrir fjórum árum.
Símon óraði ekki fyrir að hann ætti eftir að standa á verðlaunapalli á kraftlyftingamóti fyrir fjórum árum. MYND/ERNIR
Símon Birgisson, sýningar- og handritsdramatúrg hjá Þjóðleikhúsinu, sýndi á sér nýja hlið um síðustu helgi þegar hann sigraði í -90 kg flokki á Íslandsmóti kraftlyftingasambandsins Metal. Hann dreymdi alltaf um að verða sterkur og má því segja að draumurinn hafi ræst.

Símon byrjaði að æfa kraftlyftingar fyrir rúmum fjórum árum. „Mig langaði að koma mér í form en stóð frammi fyrir öðru vandamáli en margir. Ég er einn og áttatíu á hæð og var aðeins 62 kíló enda búinn að drekka ansi mikið kaffi og reykja aðeins of marga sígarettupakka um ævina. Mig langaði að breyta um lífsstíl; þyngja mig, brenna fitu og bæta á mig vöðvum,“ lýsir Símon.

Hann hefur að eigin sögn alltaf verið haldinn svolítilli kraftadellu. „Ég horfði alltaf á keppnina Sterkasti maður heims þegar ég var yngri og leit upp til manna eins og Jóns Páls og Magga Ver. Arnold Schwarzenegger var líka mikil hetja í mínum augum og sömuleiðis Gísli Súrsson og Morgan Kane.“

Um það leyti sem Símon byrjaði að æfa hafði hann nóg að gera í þýska leikhúsheiminum. „Þetta var vertíðarvinna og ég reyndi að finna mér líkamsræktarstöðvar í þeim borgum þar sem ég starfaði hverju sinni. Eins gróf ég upp prógrömm á borð við Stronglifts 5x5 á netinu og reyndi að missa aldrei úr æfingu.“

Símon fann fljótlega að sportið átti við hann. „Ég varð alveg forfallinn en vissi að ef ég ætlaði að komast í keppnisform yrði ég að leita leiðsagnar hjá þeim bestu,“ segir Símon sem fór í kjölfarið að æfa í Steve Gym á Grettisgötu. Lítilli „neðanjarðar“ líkamsræktarstöð þar sem margir af helstu kraftlyftingamönnum landsins hafa æft.

„Þetta var fyrir um tveimur árum. Ég sá stiklu úr heimildarmyndinni Hrikalegir sem félagi minn Haukur Valdimar Pálsson var að gera um Steve Gym. Ég sá glitta í þessa leynistöð og setti mér tvö markmið – að finna stöðina og að byrja að æfa. Það hafðist. Mér var vel tekið og eftir það varð ekki aftur snúið. Þarna voru menn að taka alvöru þyngdir og upp frá því fór ég að taka hraðari framförum.“

Baldvin Skúlason, betur þekktur sem Baldvin bekkur, hefur þjálfað Símon í bekkpressu en hann er margfaldur Íslandsmeistari í greininni.
Félagsskapurinn mikilvægur

Þó kraftlyftingar séu einstaklingsíþrótt skiptir félagsskapurinn að sögn Símonar gríðarlegu máli.

„Ég hef eignast góða vini og félaga í tengslum við sportið og það gerir þetta enginn einn. Ég á til dæmis þjálfara mínum Kára Elíssyni, einum fremsta kraftlyftingamanni landsins, mikið að þakka. Sömuleiðis Baldvini „bekk“ og „Foringjanum“ auðvitað, Stefáni „Steve“ Hallgrímssyni,“ segir Símon og brosir en viðurnefni og kraftasportið tengjast sterkum böndum.

„Sjálfur er ég kallaður „Draminn“ enda líklega eini dramatúrg landsins sem tekur 200 kíló í réttstöðulyftu.“

Steve Gym eyðilagðist í miklum bruna á Grettisgötu þann 7. mars síðastliðinn og við það dreifðist hópurinn að sögn Símonar. Hluti hans æfir nú í Jakagili hjá Magnúsi Ver og er Símon þar á meðal. Hann æfir þrisvar í viku og segir það duga. „Ég er nýskriðinn á fertugsaldur og líkaminn þarf tíma til að jafna sig á milli æfinga. Hver æfing tekur töluverðan toll,“ útskýrir Símon.

Símon sigraði í -90 kg flokki á Íslandsmóti Metal um helgina. Hann tók 200 kg í réttstöðulyftu, 210 kg í hnébeygju og 125 kg í bekkpressu og var auk þess þriðji stigahæsti keppandinn á mótinu. MYND/ERNIR
Persónulegur sigur

En bjóst hann við því að sigra á mótinu um helgina?

„Já og nei. Ég hef í það minnsta lagt mikla rækt við þetta og stefndi að góðum árangri en þetta var í fyrsta skipti sem ég keppti í fullum útbúnaði,“ segir Símon sem tók 200 kg í réttstöðulyftu, 210 kg í hnébeygju og 125 kg í bekkpressu og uppskar sigur í samanlögðu í -90 kg flokki ásamt því að vera þriðji stigahæsti keppandinn á mótinu.

„Þetta var þó fyrst og fremst persónulegur sigur fyrir mig. Það hefur margt breyst á þessum fjórum árum og ég hef komist að því að ekkert er ómögulegt.“

Við æfingar í Steve Gym. Þjálfarinn Kári Elísson og fleiri til aðstoðar.
Agi sem nýtist í öðru

Símon segir kraftlyftingar krefjast mikils skipulags og aga sem skilar sér yfir í annað sem hann tekur sér fyrir hendur. „Þetta er erfitt fyrir bæði líkama og sál og þú þarft sífellt að sigrast á hindrunum. Það nær enginn árangri í þessu nema að beita sjálfan sig gríðarlegum aga og mér finnst það meðal annars hjálpa mér í vinnunni. Mér finnst ég koma meiru í verk.“

Símon var ráðinn sýningar- og handritsdramatúrg hjá Þjóðleikhúsinu fyrir rúmu ári en hafði áður fengist við að skrifa leikgerðir fyrir leikhúsið og hlotið Grímuverðlaunin fyrir bæði leikgerð sína að Englum alheimsins og Konunni við 1000°. Þá var hann leikhúsgagnrýnandi í Djöflaeyjunni á RÚV um þriggja ára skeið.

„Nú er ég að vinna handrit upp úr bókinni Gott fólk eftir Val Grettisson sem verður sett á svið á næsta ári. „Þetta er ögrandi bók og gríðarlega spennandi verkefni,“ segir Símon.

Símon ásamt félaga sínum Hauki Valdimari Pálssyni sem gerði heimildarmyndina Hrikalegir um Steve Gym.
Merki um sykursýki II

Samhliða æfingunum hefur Símon tekið mataræðið og lífsstílinn í gegn.

„Þetta helst allt í hendur og það þýðir ekkert að reykja, drekka og borða rusl. Fyrir rúmu ári fékk ég auk þess viðvörunarmerki um sykursýki tvö á byrjunarstigi sem varð til þess að ég fór enn betur í saumana á mataraæðinu og byrjaði að horfa á allan þennan sykur sem er í kringum okkur. Í grundvallaratriðum borða ég þó mjög mikið,“ segir Símon og hlær, enda nauðsynlegt að innbyrða mjög mikið magn af hitaeiningum ef ætlunin er að lyfta þungt.

„Jú, jú. Fyrir mót voru það sex egg og hálfur beikonpakki á morgnana og nokkrar hnetusmjörsdollur á viku.“

Símon festi nýverið kaup á gömlu húsi í vesturbænum í Hafnarfirði og gæti ekki verið ánægðari með lífið.
Ekki lengur tabú að lyfta lóðum

Símon segir áhuga á kraftlyftingum stöðugt að aukast og hjá báðum kynjum. En hvernig skýrir hann það?

„Ég held að þetta sé bara angi af þessari gríðarlegu líkamsræktarbyltingu sem gengur yfir heiminn og er einhver stærsta bylting síðari ára. Ég held að fólk sé að átta sig á því að það er miklu betri lækning fólgin í því að hreyfa sig en að taka pillur.“

En er stefnan tekin á fleiri mót?

„Maður verður auðvitað alltaf æstur í meiri þyngdir en ég læt þetta duga í bili og ætla ég að snúa mér að því að koma mér fyrir á nýju heimili,“ segir Símon sem festi nýverið kaup á gömlu húsi á Merkurgötu í heimabænum Hafnarfirði.

„Ég er að upplifa hafnfirska drauminn. Flytja aftur í heimabæinn, búa í litlu húsi sem þarf að gera upp með garði. Lífið getur ekki orðið betra.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×