Innlent

Vill þak á veðhlutföll

Ásgeir Erlendsson skrifar
Framkvæmdastjóri fjármálastöðuleika Seðlabankans segir skýr merki um aukna spennu í þjóðarbúskapnum. Mikilvægt sé að setja þak á veðhlutföll húsnæðislána í varúðarskyni á meðan fjármálakerfið sé enn í góðu jafnvægi.

Í nýjasta riti Fjármálastöðuleika Seðlabankans kemur fram að skýr merki séu um aukna spennu í innlendum þjóðarbúskapmeð vaxandi hættu á að fjármálalegt ójafnvægi fylgi í kjölfarið.

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði tæp 7% í fyrra og um eitt prósentustig á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs. Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðuleika Seðlabankans, segir að verðhækkunin virðist ekki vera drifin áfram af aukinn skuldsetningu heimilanna en mikilvægt sé að setja þak á veðhlutföll í varúðarskyni áður en skuldadrifin hækkun á fasteignaverði hefst.

„Við sjáum að núna er allt að fara í gang. Við erum í raun í mjög góðu jafnvægi núna. Við erum við sjóndeildarhringinn að sjá að hlutnirnir eru að byrja að hitna upp og hagkerfið er að fara í uppsveiflu eins og maður kallar. Það er mjög gott að vera komin með þessar reglur í gang og í einhvern farveg áður en það gerist.“ Segir Sigríður.

Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um fasteignalán sem heimilar Fjármálaeftirlitinu, að fengnum tilmælum fjármálastöðugleikaráðs, að ákveða í reglum hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána.

„Eins og þetta er sett núna í frumvarpinu þá er það fjármálastöðuleikaráð sem er með aðkomu þriggja stjórnvalda sem tekur ákvörðun um þetta og beinir tilmælum til Fjármálaeftirlitsins, sem svo ákveður hvert hlutfallið verður. Við höfum svona verið að horfa á 80% sem ágætt hlutfall til að setja til að byrja með. Á sama tíma er það ekki alveg úthugsað og við sjáum fyrir okkur að það sé hægt að hafa undanþágu fyrir þá sem eru að kaupa íbúð í fyrsta skipti og jafnvel líka undanþágu fyrir aðila með lægri tekjur. “

Ef engar skorður eru settar, hvaða áhrif getur það haft?

„Þá getum við lent í svipuðu og gerðist hér árið 2003 og 2004. Það er það að veðhlutföll í húsnæði hækkuði ansi hratt og heimili byrjuðu að skuldsetja sig hratt. Þau lentu ansi illa í því. Þar af leiðandi í áfallinu sem kom á eftir. “




Fleiri fréttir

Sjá meira


×