Körfubolti

Finnur um Helenu: Hún kann ekki að strauja þannig að ég sé um það

Anton Ingi Leifsson skrifar
Köruboltaparið Helena Sverrisdóttir og Finnur Atli Magnússon leika bæði til úrslita með liðum sínum í Dominos-deildinni; Finnur með karlaliði Hauka og Helena kvennaliðinu.

„Við tölum líka um aðra hluti, en körfuboltinn er stór partur af þessu. Maður reynir að vera jákvæður, en stundum þegar manni líður eins og maður geti hjálpað með eitthvað þá segi ég honum frá því," sagði Helena við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Hún er voða lítið að gagnrýna. Hún er bara að reyna finna eitthvað sem getur hjálpað manni; hvort sem það er í vörn eða sókn þannig maður tekur þessum sem jákvæðum hlut."

Finnur mun mæta bróður sínum, Helga Má Magnússyni, í úrslitarimmunni gegn KR.

„Það verður sérstakt að fara inn í KR að spila á móti KR þar sem ég er uppalinn í KR, en ég vissi alltaf að þetta væri möguleiki þegar ég skrifaði undir hjá Haukum."

„Ég sagði það í undanúrslitunum að ég vildi fá KR. Þeir eru bestir og ef þú vilt verða bestur þá þarftu að fara í gegnum þá bestu. Það er bara bónus að fá KR, dekka bróður sinn og sýna honum að hann sé að verða gamall."

Helena segir að Finnur sé í farabroddi þegar kemur að eldhúsinu.

„Hann sér um eldamennskuna, en ég sé um allt hitt. Þvotturinn og þrifin, ég sit uppi með það. Hann má eiga það að hann er miklu betri í því," en svo spurði Gaupi út í straujárnið?

„Hún kann ekki að strauja þannig ég sé um straujárnið," sagði Finnur glettinn að lokum.

Innslag Guðjóns Guðmundssonar, eða Gaupa, sem birtist í kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá í sjónvarpsglugganum hér efst í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×