Innlent

Umtal getur ýtt undir komur fólks á geðdeild

Stefanía Björg Víkingsdóttir skrifar
Skammtímasveiflur eru í komum á bráðamóttöku geðdeildar.
Skammtímasveiflur eru í komum á bráðamóttöku geðdeildar. vísir/vilhelm
Tölur frá geðdeild Landspítala sýna skammtímasveiflur í komum á deildina, til dæmis í tengslum við aukið umtal og það sem er í deiglunni, segir Einar Valdimarsson, fjármálastjóri hjá geðdeild.

Aukning varð 2013 þegar átakið Á allra vörum stóð að söfnun fyrir sérstakri bráðageðdeild, en málefni ársins var geðheilbrigði á Íslandi. Átakið var haldið í október en strax í nóvember varð aukning á komum á bráðaþjónustu geðsviðs, segir Einar. Komum fækkaði svo aftur í desember.

Tölur sýna einnig að aukning varð í komum frá september til nóvember á síðasta ári en á þeim tíma var herferðin „Ég er ekki tabú“ í fullum gangi. Einar segir að brugðist sé við sveiflum af þessu tagi með því að fjölga rúmum, til dæmis með því að bæta við í einstaklingsherbergi.

Meðalnýting á endurhæfingargeðdeild og bráða- og móttökugeðdeild hefur einnig aukist síðan 2014.

Meðalnýting hefur farið úr 91 prósenti upp í 96 prósent árið 2016 á endurhæfingargeðdeild. Á bráða- og móttökugeðdeild hefur meðalnýting farið úr 90 prósentum í 102 prósent. Hér er miðað við fyrstu þrjá mánuði ársins.

Sigurbjörg Jóna Ludvigsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Kvíðameðferðarstöðinni segir að henni hafi fundist aðsókn í meðferð hjá þeim hafa tekið smá kipp eftir „Ég er ekki tabú“ herferðina, en að annars hafi aðsóknin verið frekar stöðug.

Sigurbjörg Jóna segir fólk einnig vera heilt yfir meðvitaðra um að leita sér aðstoðar ef eitthvað er að, og að meðferðarstöðum fari fjölgandi vegna aukinnar eftirspurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×