Enski boltinn

Mitrovic bjargaði stigi fyrir Newcastle | Góð úrslit fyrir Gylfa og félaga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aleksander Mitrovic fagnar marki sínu með stæl.
Aleksander Mitrovic fagnar marki sínu með stæl. vísir/getty

Newcastle og Sunderland skildu jöfn, 1-1, í nágrannaslag í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Úrslitin gera lítið fyrir hvorugt liðið. Jermaine Defoe kom Sunderland yfir á 44. mínútu en hann smellhitti þá boltann eftir darraðadans í teignum, 1-0.

Þegar allt stefndi í risasigur Sunderland á útivelli í viðureign þessara miklu erkifjenda bjargaði serbneski framherjinn Aleksandar Mitrovic stigi fyrir heimamenn á 83. mínútu.

Markið var nokkuð glæsilegt en hann stangaði boltann í netið á fjærstönginni eftir fyrirgjöf frá hægri. Hann stökk mun hærra en bakvörðurinn DeAndre Yedlin sem leit ekki vel út.

Mitrovic rotaðist í uppbótartíma og þegar hann rankaði við sér heimtaði læknir Newcastle-liðsins að hann yrði tekinn af velli. Mitrovic tók það ekki í mál og vildi ólmur komast aftur inn á. Rafa Benítez gerði það eina rétta og sendi Serbann ekki aftur inn á völlinn enda framherjinn augljóslega vankaður.

Bæði lið eru áfram í fallsæti eftir úrslitin. Sunderland er í 18. sæti með 25 og Newcastle í 19. sæti með 24 stig.

Úrslitin eru frábær fyrir Gylfa Þór Sigurðsson og félaga í Swansea sem eru nú ellefu stigum frá fallsvæðinu. Sunderland og Newcastle eiga reyndar leik til góða á Swansea.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira