Enski boltinn

Mane tryggði Southampton ótrúlegan sigur | Sjáðu mörkin og vítaklúðrið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mane skorar í leiknum.
Mane skorar í leiknum. vísir/getty
Southampton vann ótrúlegan sigur á Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, en lokatölur urðu 3-2. Liverpool leiddi í hálfleik 2-0.

Það leit ekki út fyrir að Liverpool hafi verið að spila í vikunni því þeir byrjuðu af miklum krafti. Philippe Coutinho kom þeim yfir á sautjándu mínútu með laglegu skoti.

Liverpool óð í færum og það kom ekki mikið á óvart að þeir skoruðu annað mark leiksins, en það gerði Daniel Sturridge með skoti innan vítateigs.

Gestirnir frá Bítlaborginni fengu fleiri færi til þess að skora fleiri mörk og Joe Allen klikkaði meðal annars dauðafæri, einn gegn markverði, en staðan 2-0 í hálfleik.

Það var allt annað að sjá heimamenn í Southampton í síðari hálfleik. Sadio Mane og Victor Wanyama komu inná sem varamenn í hálfleik og þeir létu til sín taka.

Martin Skrtel kom einnig inná sem varamaður í hálfleik, en hann braut á Graziano Pelle þegar fjórar mínútur voru búnar af síðari hálfleik. Mane steig á punktinn, en lét Mignolet verja frá sér.

Mane var staðráðinn í að bæta upp fyrir mistökin og hann skoraði laglegt mark á 64. mínútu þegar hann þrumaði boltanum í fjærhornið. Mignolet kom engum vörnum við.

Þegar sjö mínútur voru eftir dró til tíðinda. Graziano Pelle jafnaði metin með geggjuðu skoti fyrir utan teiginn og heimamenn búnir að vinna upp tveggja marka forskot.

Heimamenn voru ekki hættir því varamaðurinn Sadio Mane tryggði þeim ótrúlegan sigur fjórum mínútum fyrir leikslok með svipuðu marki og hann hafði skorað fyrr í leiknum, en lokatölur 3-2.

Southampton er komið upp að hlið Manchester United í sjötta til sjöunda sæti deildarinnar með 47 stig, en United á tvo leiki til góða. Liverpool er í níunda sætinu með 44 stig.

Philippe Coutinho kemur Liverpool í 0-1: Daniel Sturridge kemur Liverpool í 0-2: Vítaklúður hjá Southampton: Mane minnkar muninn í 1-2: Pelle jafnar í 2-2: Mane kemur Southampton í 3-2:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×