Innlent

Tenerife íslensk nýlenda um páskana

Ásgeir Erlendsson skrifar

Tenerife æði hefur gripið þjóðina en um þúsund Íslendingar halda til eyjunnar í viku hverri. Eyjan verður hálfgerð íslensk nýlenda um páskana því talið er að hátt í þrjú þúsund Íslendingar muni þá dvelja á Tenerife.

Á ríflega klukkustundar tímabili síðastliðinn þriðjudag héldu rúmlega 500 Íslendingar til spænsku eyjarinnar Tenerife sem er hluti af Kanaríeyjum. Flugvélar Wow, Icelandair og Primera air voru allar staddar á sama tíma á flugvellinum ytra og íslenska var allsráðandi á Tenerife.

Gríðarleg aukning hefur orðið í þessum ferðum en tvöfalt meira framboð er á flugi til staðarins frá Keflavík nú miðað við sama tíma í fyrra. Algjör sprenging virðist ætla að eiga sér stað um páskana og Guðrún Sigurgeirsdóttir hjá Vita ferðum segir að auðveldlega megi tala um æði.

„Það eru vikuleg flug hjá að minnsta kosti þremur flugfélögum, og sum fara tvisvar í viku,“ segir Guðrún. „Flestar vélarnar eru að taka svona 180 farþega hver, þannig að þetta gætu verið svona þúsund til 1200 manns sem fara í hverri viku.“

Eftir kaldan og dimman vetur hafa sólþyrstir Íslendingar ekki mikið val á þessum árstíma og Guðrún telur hluta skýringarinnar liggja í miklu framboði á flugi til eyjunnar frá Keflavík.

„Það eru ekki svo margir áfangastaðir sem fólk getur farið á ef það vill sól og hita um páskana,“ segir hún. „Páskarnir eru svo snemma að það er annað hvort að fara til Kanaríeyjanna, Flórída eða jafnvel bara langt til austurlanda, því Miðjarðarhafið er bara kalt á þessum árstíma.“

Sem fyrr segir, er talið að hátt í þrjú þúsund Íslendingar verði á staðnum yfir páskana og því skal varast að tala illa um náungann á íslensku.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira