Innlent

Ferðamaður fótbrotnaði á blautum stíg við Kerið

Bjarki Ármannsson skrifar
Myndir af vettvangi. Leiðsögumaður sem var á svæðinu þegar óhappið varð segir stíginn að Kerinu orðinn hálfgert drullusvað á kölfum.
Myndir af vettvangi. Leiðsögumaður sem var á svæðinu þegar óhappið varð segir stíginn að Kerinu orðinn hálfgert drullusvað á kölfum. Myndir/Aðsendar
Breskur ferðamaður á áttræðisaldri rann til og fótbrotnaði við Kerið í Grímsnesi í morgun. Leiðsögumaður sem varð vitni að slysinu gagnrýnir umhirðu á svæðinu en talsmaður eigenda segir lítið hægt að gera í því að setja möl á stíga svo stuttu eftir að snjóa leysir.

Ferðamaðurinn hlaut að sögn sjónarvottar opin beinbrot og var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.

Leiðsögumaður sem var á svæðinu þegar óhappið varð, en vildi ekki láta nafns síns getið, segir stíginn að Kerinu orðinn hálfgert drullusvað á köflum og kennir því um að maðurinn rann til. Hann segir það ábyrgðarleysi af eigendunum að hafa ekki bætt möl á stíginn eftir að snjórinn bráðnaði.

Óskar Magnússon, talsmaður eigenda Kersins, segir rauðamöl borna á stíginn reglulega en að lítið sé þó hægt að gera að svo stöddu.

„Þegar snjóa leysir og frost fer að fara úr jörðu, þá eru stígarnir drullublautir og vatn í þeim og alveg tilgangslaust að setja nokkuð efni í þá. Það rennur bara í burtu,“ segir Óskar. „Það verður að láta vatnið fara fyrst. Jafnvel þótt við biðum með skóflurnar á lofti, þá hefði það ekkert upp á sig.“

Jafnframt bendir Óskar á aldrei sé hægt að koma í veg fyrir öll slys. Ferðamenn séu á svæðinu á eigin ábyrgð, líkt og segir á skilti við bílastæðið.


Tengdar fréttir

Ferðafólki att á kaldan klaka við Gullfoss

Gríðarlegt svell er yfir öllu við Gullfoss þar sem ferðamenn á öllum aldri fikra sig varfærnislega í átt að náttúruperlunni. Lítið er gert til að draga úr hálkunni og gera leiðina greiðfærari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×