Körfubolti

Ekki fleiri útisigrar í sjö ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukar og Tindastóll hafa bæði unnið útileik í úrslitakeppninni í ár.
Haukar og Tindastóll hafa bæði unnið útileik í úrslitakeppninni í ár. Vísir/Anton

Útiliðin hafa unnið sex af fyrstu átta leikjunum í úrslitakeppni Domino´s deildar karla í körfubolta en báðir leikir gærkvöldsins unnust á útivelli.

Stjarnan vann í Njarðvík og Haukar unnu í Þorlákshöfn og staðan er því 1-1 í báðum einvígunum þar sem allir fjórir leikirnir hafa unnist á útivelli.

KR vann líka í Grindavík og Tindastóll fagnaði sigri í Keflavík. Sex af átta liðum úrslitakeppninnar hafa því unnið útileik í fyrstu átta leikjum úrslitakeppninnar í ár.  

Þetta er metjöfnun og það þarf að fara alla leið til ársins 2007 til að finna jafnmarga útisigra (6) í átta fyrstu leikjum úrslitakeppninnar.

Útiliðin hafa aldrei unnið fleiri leiki í upphafi úrslitakeppninnar frá því að átta liða úrslitin voru tekin upp vorið 1995.

KR og Tindastóll eru því einu liðin sem hafa unnið heimaleik í úrslitakeppninni til þessa en þessi tvö lið sem mættust í lokaúrslitunum í fyrra eru komin í 2-0 í sínum einvígum og tryggja sér því sæti í undanúrslitum með sigri í næsta leik sem er á miðvikudagskvöldið.

Lið Grindavíkur og Keflavíkur hafa ekki verið sannfærandi í þessum tveimur fyrstu leikjum sem þau hafa tapað með samtals 58 stigum (14,5 að meðaltali), Grindavík með 32 (16,0) og Keflavík með 26 (13,0).


Flestir útisigrar í fyrstu átta leikjum úrslitakeppninnar:
(Frá því að 8 liða úrslit voru tekin upp 1995)
6 útisigrar - 1997, 2016
5 útisigrar - 2006,
4 útisigrar - 1997, 1999, 2004, 2008, 2010
3 útisigrar - 1995, 2005, 2009, 2014, 2015

Sigurhlutfall útiliðanna í fyrstu átta leikjunum undanfarin ár:
2016 - 75 prósent (6 sigrar í 8 leikjum)
2015 - 38 prósent (3 sigrar í 8 leikjum)
2014 - 38 prósent (3 sigrar í 8 leikjum)
2013 - 25 prósent (2 sigrar í 8 leikjum)
2012 - 25 prósent (2 sigrar í 8 leikjum)
2011 - 13 prósent (1 sigrar í 8 leikjum)
2010 - 50 prósent (4 sigrar í 8 leikjum)


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira